136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[16:25]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég átta mig ekki á því hvað hæstv. heilbrigðisráðherra er að þvæla. Í athugasemd um 17. gr. frumvarpsins stendur um það sem hér á að fara að gera, með leyfi forseta: „Lagt er til að í 2. tölul. verði sett inn ákvæði er heimilar að taka upp komugjald við innlögn á sjúkrahús …“ Það var það sem ég var að segja að hefði ekki verið til staðar hér, nákvæmlega. Hitt þekki ég allt saman.

Ég veit líka að í lögum um heilbrigðisþjónustu stendur í 18. gr. (Gripið fram í: Sjúkratryggingar.) Í lögum um sjúkratryggingar stendur í 18. gr., með leyfi forseta: „Sjúkratryggingar taka til ókeypis vistar að ráði læknis í sjúkrahúsum sem rekin eru af ríkinu eða samkvæmt samningum …“ Á þá ekki að breyta þessu? Það verður að slátra þessu ákvæði, það á ekki við lengur. Það er enginn ókeypis vist eftir inni á sjúkrahúsum þó að ráði læknis sé. Við erum að tala um innritun til dvalar á sjúkrahús sem læknir ákveður í samráði við sinn sjúkling. Þetta er ekki þannig að menn labbi inn af götunni að gamni sínu og það detti bara í það einn góðan veðurdag að leggjast á spítala, eins og ráða mátti af hæstv. forsætisráðherra sem taldi að þetta gæti jafnvel bremsað það aðeins niður. Ég þekki engan mann og engan lækni á Íslandi sem er að leika sér að því að gamni sínu að spýta mönnum inn á sjúkrahús. Þetta er ekki þannig. Þetta er svipað og þegar ráðherra Alþýðuflokksins taldi svo mikilvægt að taka upp kostnaðargreiðslu sjúklinga af því að þeir væru alltaf að láta taka úr sér botnlangann að óþörfu aftur og aftur. Það þyrfti að innprenta mönnum kostnaðarvitund. Þetta er þvæla. Við erum ekki að tala um svona hluti hér. Hér er alvarleg prinsippbreyting á ferðinni vegna þess að þetta vígi, sjúkrahúsin sjálf hafa þó staðið þeim sem svo veikir eru að þeir þurfa að leggjast inn, innritast þangað til dvalar, til boða áður án sérstakrar greiðslu.