136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[16:42]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það hryggir mig mjög hversu fámennt er oft í þessum sal þegar við ræðum svo stórt mál sem þetta. (Gripið fram í.) Þetta mál skiptir fólkið í landinu máli upp á 16 eða 17 milljarða kr. (Gripið fram í.) og ríkisstjórnin hefur lagt það fram til að bæta stöðu ríkissjóðs um þá upphæð. Ég ætla ekki að draga neitt úr því. Að sjálfsögðu þarf að standa vörð um ríkissjóð í erfiðu árferði en mér finnast áherslur ríkisstjórnarinnar í því hvert sækja eigi fjármunina sem mælt er fyrir um í frumvarpinu einkar athyglisverðar. Það á að sækja 360 millj. til sjúklinga vegna nýs gjalds vegna innlagna á sjúkrahús, 400 millj. til foreldra nýfæddra barna með skerðingu á Fæðingarorlofssjóði og 800 millj. í vasa bænda. Þar voru breiðustu bökin fyrir, hæstv. forseti. Af einni mestu láglaunastétt landsins á að taka 800 millj. kr. Það á að ná í tæpa 4 milljarða kr. frá öldruðum og öryrkjum, 3,9 milljarðar sem hefðu átt að renna til þeirra eru skertir með þessu frumvarpi. Fyrir utan það að 400 millj. kr. lækkun er á sérstöku framlagi til sveitarfélaga, sem glímt hafa við kreppu mörg undanfarin ár. Þetta er hin nöturlega staðreynd um forgangsröðun ríkisstjórnarinnar.

Málaflokkarnir sem ég nefndi eru vitaskuld grafalvarlegir, því að mér sýnist að verið sé að seilast til þeirra sem síst skyldi og ég fagna því að hæstv. heilbrigðisráðherra skuli vera viðstaddur umræðuna sem og hæstv. forsætisráðherra í hliðarsal.

Ég hefði kosið, hæstv. forseti, að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra væri viðstaddur umræðuna (Gripið fram í.) vegna þess að mig langar til að ræða breytingar á búvörusamningnum, þar sem takmarka á starfsskilyrði með því að lækka fyrir fram gerða samninga. Bændur hafa gert langtímaáform með tilliti til þess að ríkið stæði við samningana og margir þeirra fóru út í miklar fjárfestingar til að byggja upp bú sín. Nú er ljóst að annar samningsaðilinn, ríkið, mun ekki standa við gerða samninga og talið er að þar muni allt að 800 millj. kr. fyrir íslenskan landbúnað. Það munar um minna, hæstv. forseti. Ég spyr hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hvort ekki sé mikilvægt að stjórnvöld standi vörð um innlenda landbúnaðarframleiðslu á tímum sem þessum. Ég held að ágæti íslensks landbúnaðar hafi aldrei sannað sig eins mikið og á þessum síðustu og verstu tímum og ef eitthvað er hafa landbúnaðarstéttin og landbúnaðarframleiðslan haldið aftur af annars gríðarlega mikilli verðbólgu sem hækkar lán allra landsmanna. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi átt formlegar viðræður við forustu Bændasamtakanna um breytingar á samningnum, sem sumir vilja meina að geti jafnvel falið í sér brot. Hvaða samskipti hafa átt sér stað við forustu bænda í málinu? Þegar ríkisstjórnin tók við völdum var mikið predikað um samræðustjórnmál og að menn þyrftu að tala saman.

Í annan stað vil ég spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra hvað megi áætla að þetta hækki matvælaverð í landinu mikið og vísitöluna og verðbólguna. Nýlegar hækkanir á áfengi og tóbaki hafa ruðst fram í hækkun á vísitölunni af tvöföldum krafti. Hvaða áhrif mun þessi breyting hafa á vísitöluna? Ljóst er að bændur munu ekki geta tekið þessar 800 millj. á sig. Því er mikilvægt að við höfum í huga að þetta mun hafa áhrif á allar fjölskyldur í landinu, á lán allra fjölskyldna vegna þess að þetta mun auka verðbólguna í ljósi þess að bændur þurfa að hækka verð á vörum sínum.

Ég vil spyrja hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra út í þær aðgerðir sem er ráðist í hér gagnvart öldruðum og öryrkjum. Ég ætla að grípa í greinargerð með frumvarpinu þar sem stendur orðrétt, með leyfi forseta:

„Einnig er gert ráð fyrir því í þessum hluta frumvarpsins að hækkun á bótum almannatrygginga um næstu áramót verði óbreytt frá forsendum fjárlagafrumvarpsins, eða 9,6%, fremur en að miðað verði við vísitölu neysluverðs. Er áætlað að þannig verði komið í veg fyrir um 5,9 milljarða kr. aukningu útgjalda.“

Aukningu útgjalda til aldraðra og öryrkja. Reyndar er síðan farið í aðgerðir sem bæta hag hluta öryrkja upp á 2 milljarða kr. þannig að kjör aldraðra og öryrkja eru skert um 3,9 milljarða kr. með frumvarpinu. (Gripið fram í.) Ég ætla að rifja það upp, hæstv. forseti, af því að ég heyri að hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir mælir þessu í mót, hvort hv. þingmaður mælir því þá ekki líka í mót að ríkisstjórnin hafi breytt um viðmið í kjölfar síðustu kjarasamninga gagnvart öldruðum og öryrkjum? Það fullyrða aldraðir, öryrkjar og forsvarsmenn Alþýðusambands Íslands og í þeim samningum tókst ríkisstjórninni að ná 3,6 milljörðum af þessum hópum með því að lækka þetta viðmið. Það segir sig sjálft, hæstv. forseti, að ef forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er að veitast að þessum hópum þegar óðaverðbólga geysar og lán þeirra hækka gríðarlega er ekki forsvaranlegt að eitt meginefni frumvarpsins skuli vera að skerða kjör þessara hópa. Ég fer fram á að hæstv. ráðherra félagsmála svari spurningum er lúta að kjörum þessa hóps.

Mig langar líka að spyrja, hæstv. forseti, ef hæstv. samgönguráðherra hefði verið hér hvort ekki hefði þurft að endurnýja það tímabundna framlag sem sveitarfélögin sem hvað verst hafa staðið í landinu hafa fengið frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Það lækkar úr 1.400 millj. niður í milljarð, ef ég skil frumvarpið rétt, eða um ein 30%. Þessi sveitarfélög eru, svo ég nefni nokkur dæmi: Ísafjörður, Norðurþing, Sveitarfélagið Skagafjörður, Vestmannaeyjar, Hornafjörður og ég gæti haldið áfram. Þessi sveitarfélög hafa á undanförnum árum átt mjög erfitt með að ná endum saman, enda er orðið „kreppa“ í þessum samfélögum er ekki nýtt hugtak. Það hefur geysað kreppa í þessum sjávarbyggðum á undanförnum 20 árum og nú þegar þessi kreppa skellur á samfélögum sem tóku ekki þátt í góðærinu og urðu jafnvel fyrir barðinu á því, því góðærið bitnaði á útflutningsatvinnuvegunum, þá á að skerða tímabundið framlag til þessara sveitarfélaga sem geta varla komið saman rekstrar- og efnahagsreikningum sínum.

Síðan nefnir ríkisstjórnin það og telur mikilvægt hlutverk fyrir þessi sveitarfélög að standa vörð um nærþjónustuna, um íbúana. [Kliður í salnum.] En hvað ef þau geta ekki sinnt því lögboðna hlutverki sínu vegna þess að þau hafa ekki tekjustofna til þess? Það verður mjög fróðlegt að sjá hverjar fjárhagsáætlanir þessara sveitarfélaga verða, sérstaklega í ljósi þess að tekjustofninn skerðist hjá þeim og svo mörgum öðrum. Hæstv. forseti. Það væri ágætt að fá þögn í salinn þegar maður heldur ræðu eða ágætir þingmenn tali saman frammi á göngunum vegna þess að við erum að tala um stórmál, ekkert smámál. Við tölum um breytingar, tekjutilfærslur frá einstaka hópum til ríkisins upp á 16–17 milljarða kr. Ég hef minnst á barnafólk, bændur, öryrkja og aldraða og nú er tekinn upp nýr skattur, sérstök komugjöld á heilbrigðisstofnunum, frá fólki sem þarf að leggjast á spítala, upp á 360 millj. kr. (ÁRJ: Þið voruð með þau líka.) Hv. þingmaður bendir á að fyrri ríkisstjórn hafi verið með ýmis slík gjöld. Hér er verið að taka upp nýjan skatt og ég ætla að benda hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur, þingmanni Samfylkingarinnar, á að sjálfstæðismenn sögðu að hægt að væri gera ýmsa hluti í velferðarmálum, í heilbrigðismálum sem þeim hefði ekki tekist að gera með Framsóknarflokknum. Enda var það þannig í upphafi kjörtímabilsins (Gripið fram í.) að menn boðuðu aukna einkavæðingu þar. Við framsóknarmenn vorum ekki tilbúnir að ráðast í slíkar aðgerðir.

Hæstv. forseti. Hægt væri að halda langa ræðu um þessi mikilvægu mál og ég vonast til að mjög ítarleg umræða verði um þau. Þetta frumvarp sem lagt er síðdegis fram skiptir máli fyrir þúsundir Íslendinga og eins og ég hef rakið eru þetta þeir Íslendingar sem mega einna síst við því á erfiðustu tímum sem við höfum gengið í gegnum á síðustu árum að verða fyrir því að gjöld séu stórhækkuð á þá og tekjur þeirra minnkaðar. Við verðum að fara mjög vandlega yfir þetta og ekki mun líðast að við afgreiðum frumvarpið, þennan bandorm, með einhverjum brjálæðislegum hraða. Í umræðum um fjárlög fyrr í dag á fundi efnahags- og skattanefndar Alþingis í morgun óskaði ég eftir forsendum er varða tekjuhlið fjárlaganna. Við þingmennirnir sem eigum að bera ábyrgð á afgreiðslu málsins höfum ekki enn fengið það sent. Ég mun alla vega ekki afgreiða fjárlög íslenska ríkisins árið 2009 án þess að vita hvaða tölur og skuldbindingar liggja á bak við einstaka útgjaldaliði. Það er einfaldlega ekki hægt að Alþingi Íslendinga láti koma fram við sig með þeim hætti.

Það er eins með þetta frumvarp. Við þurfum að ræða við hópa aldraðra og öryrkja og forustumenn bænda og þá sem frumvarpið og bandormurinn snertir. Við skóflum þessu ekki í gegnum þingið sisvona. Því miður hef ég það á tilfinningunni að ríkisstjórnin sem ræður að mestu leyti hvernig þetta þing starfar ætli sér að keyra þetta mál í gegn á örfáum dögum þótt það snerti hátt í 20 milljarða kr. að umfangi og þúsundir Íslendinga. En við í hv. efnahags- og skattanefnd munum gera hvað við getum til að fá ítarlega umræðu um þessi mál.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokum segja að vinnubrögð síðustu daga á vettvangi þingsins er varða fjárlögin og nú þetta mál eru því miður ekki til eftirbreytni. Þegar ég leit á þetta frumvarp fyrr í dag trúði ég varla mínum eigin augum hverjar áherslurnar voru, sérstaklega að næla í fjármuni til einstakra hópa, því mér datt einfaldlega ekki í hug að einn stærsti einstaki sparnaðarliðurinn í frumvarpinu væri gagnvart öldruðum og öryrkjum. Mér kom það ekki til hugar. Við fórum í gegnum mjög harða umræðu fyrr á árinu þar sem við í stjórnarandstöðunni bárum það upp á ríkisstjórnina að hafa lækkað viðmið gagnvart þessum hópum, gagnvart kjarasamningum þeirra í kjölfar síðustu samninga. Forusta Alþýðusambandsins, eldri borgarar og öryrkjar staðfestu það með bréfi sem ég las upp í þingsölum Alþingis. Forsvarsmenn Samfylkingarinnar í þeirri umræðu komu upp og sögðu að þessir aðilar færu með rangt mál. Það verður þá væntanlega líka í þessu þegar verið er að taka tæpa fjóra milljarða af þessum hópum aftur að sá sem hér stendur fari bara með fleipur og vitleysu. Ég er alveg viss um að ráðherra félagsmála mun koma hingað upp og rifja upp hvernig síðasta ríkisstjórn var í þessum málum. Ég er alveg viss um það. Ég þekki orðið þau vinnubrögð hér. (Fél.- og trmrh.: Finnst þér það nokkuð skrýtið?) En þegar við horfum á það að verið er að skerða stórlega kjör þessara hópa, sem með öllum útreikningum er ekki hægt að sýna að hafi verið gert á undangengnum árum, þá er tími til kominn að menn andmæli og ég vitna til þess að Öryrkjabandalag Íslands mótmælti þessu harðlega í dag og lýsti vantrausti á ríkisstjórnina, vantrausti. Áherslur ríkisstjórnarinnar í frumvarpinu bera þess merki að þar er skorið niður sem síst skyldi.