136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[16:58]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spurði hvort ekki væri ásetningur okkar að standa vörð um íslenska landbúnaðarframleiðslu. Auðvitað er það ásetningur okkar að gera það og þess vegna fullyrði ég að það sem við erum að gera hefur það einmitt að augnamiði að reyna að tryggja íslenska landbúnaðarframleiðslu. Það sem verið er að gera með frumvarpinu sem hér er rætt um, þessum bandormi sem snýr að landbúnaðarmálunum, er einfaldlega að verið er að setja tiltekið þak á þær verðlagshækkanir eða þær vísitöluhækkanir sem geta orðið á búvörusamningunum á næsta ári. Búvörusamningarnir hafa verið verðbættir að fullu og verða verðbættir að fullu eins og kemur fram í fjáraukalagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir þinginu en það sem verið er að gera núna er að verið er að setja sérstakt þak á árið 2009 og miðað við að tölurnar sem lagðar voru fram í fjárlagafrumvarpinu í upphafi októbermánaðar munu standa.

Við vitum að þær breytingar sem hafa orðið í efnahagslífi okkar hafa kallað á aðgerðir af þessu tagi og það er alveg rétt. Hv. þingmaður spurði hvort ég hefði átt viðræður við forustumenn bænda út af þessu. Já, ég kynnti þessi mál fyrir forustumönnum bænda, raunar áður en frumvarpið kom fram, til að gera þeim grein fyrir því hvað væri í aðsigi og viðbrögð þeirra voru, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum, að þeir treystu sér ekki til að ganga til einhverra samninga um þessi mál. Eins og ég vakti athygli á fyrr í þessari umræðu eru ýmsir möguleikar í því sambandi og ég lýsi mig fúslega reiðubúinn til að taka þátt í einhverri slíkri samningagerð við bændur þó að auðvitað beri ég pólitíska ábyrgð á þeirri niðurstöðu sem hefur fengist með því að setja þetta tiltekna þak á vísitöluhækkanir á búvörusamningnum á næsta ári. Hins vegar er það örugglega svo að hægt er að gera tilteknar breytingar á búvörusamningunum sjálfum ef um það skapast samkomulag sem tryggir að þessar greiðslur renni betur til bænda en áður.

Enginn getur svarað með fullnægjandi hætti hvort þetta muni hækka matvælaverð. Auðvitað munu bændur freista þess að velta kostnaðarhækkunum sínum út í verðlagið eins og þeir hafa möguleika á en við vitum ekki á þessari stundu hvernig það mun birtast. Það mun skýrast á næsta ári.