136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[17:02]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það þarf í sjálfu sér ekki að brýna mig til þess að eiga góð samskipti við bændur. Ég hef einmitt kappkostað að eiga slík samskipti við bændur. Það hefur gengið ágætlega og ég veit að bændum er alveg ljóst og alveg kunnugt um það að ég hef áhuga á því að ræða þessi mál áfram við þá ef þeir telja að það sé flötur á því að gera einhverjar þær tilteknu breytingar innan búvörusamninganna sem gætu orðið til að stærri hluti þeirra rynni beint til bænda sjálfra. Auðvitað er ákveðið svigrúm í þeim efnum en þetta er mál sem þarf að ræðast þá af samningsaðilunum báðum og ég hef lýst því yfir að ég er mjög opinn fyrir hvers konar breytingum sem bændur telja skynsamlegar til að auka sem mest tekjustreymið beint til bændanna sjálfra.

En varðandi það sem hv. þingmaður var að velta fyrir sér um verðlagsþróunina vil ég segja það að almennt talað er mín skoðun sú að það sé skynsamlegast að bændurnir geti sótt sér sem mest af tekjum sínum í gegnum afurðaverðið sjálft. Það er það eðlilega og skynsamlega í þessum viðskiptum, að bændurnir hafi sem mestan hluta tekna sinna af því að selja afurðir sínar. Beingreiðslurnar eru síðan til viðbótar við það. Í verðlagsnefnd búvara hefur tvisvar sinnum á þessu ári tekist ágæt samstaða á milli fulltrúa neytenda, bænda og afurðastöðvanna um tilteknar hækkanir á mjólkurverði. Við vitum hins vegar varðandi sauðfjárafurðirnar að sá hluti tekna bændanna ræðst af samningum við afurðastöðvarnar við sláturhúsin og niðurstaðan var heilmikil vonbrigði fyrir ýmsa bændur í haust en það endurspeglaði mat afurðastöðvanna á því hvað þeir gætu velt stórum hluta af þessum kostnaðarauka með hækkandi verði til bænda út í verðlagið sjálft.

Við vitum ekki nákvæmlega hvernig þessi mál munu þróast. Það mun ráðast mjög mikið af því hvernig samkeppnisstaðan verður á þessu ári. Við vitum hins vegar að samkeppnisstaða íslenskrar búvöruframleiðslu og íslenskrar matvælaframleiðslu almennt hefur batnað með lækkandi gengi krónunnar og við verðum vör við vaxandi áhuga á íslenskum framleiðsluvörum. Vonandi verður það til þess að bændur geti sótt sér í meiri mæli tekjur sínar út á markaðinn en þetta er hlutur sem við gerum okkur ekki grein fyrir. Hins vegar er alveg rétt að verðlagning á búvörum hefur verið hamlandi á verðbólguna á þessu (Forseti hringir.) ári.