136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[17:09]
Horfa

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara að rífast við hv. þingmann um það hvað þessi ríkisstjórn hefur gert í sambandi við almannatryggingarnar. Þar var verulega gefið í. Þar hafa hækkað greiðslur til bæði aldraðra og öryrkja verulega frá því að þessi ríkisstjórn kom til valda, allt að 50% í sumum tilvikum.

Ég ætlaði að ræða við hv. þingmann um spítalana af því að þar byrjaði hv. þingmaður gagnrýnina áðan og ég komst ekki til að segja frá því hvernig Framsóknarflokkurinn í góðærinu hagaði sér. (BJJ: Ætlarðu enn að fara að rifja upp?) Fyrirgefðu, hv. þingmaður. Það er bara þannig, virðulegi forseti, að í tíð Framsóknarflokksins var heimilað að leggja fólk inn á spítala og rukka það fullt fyrir þjónustu meðan það var inniliggjandi án þess að vera innritað, í allt að tvo daga. Fyrst var það einn dagur og síðan, þó að það væri blússandi góðæri, var bætt við seinni deginum þannig að það mátti leggjast inn í tvo daga og alltaf var sjúklingurinn rukkaður fyrir alla þjónustu.

Það var ekkert hámark á ýmsum af þessum gjöldum. Nú á að setja öll þessi gjöld, öll útgjöld sjúklinga, undir hámark þannig að þeir sem eru mikið veikir og þurfa að greiða háar upphæðir, þurfa að greiða mikinn lyfjakostnað, þurfa að borga oft fyrir læknisþjónustu eða aðra heilbrigðisþjónustu munu fara undir ákveðið þak og ekki greiða meira en það á ákveðnu tímabili. Þetta þekkir hv. þingmaður enda á flokkur hans fulltrúa í þeirri nefnd sem er að vinna að þessum tillögum. Þarna er verið að grípa inn í þannig að mikið veikir sjúklingar eða þeir sem þurfa mikið á heilbrigðisþjónustunni að halda munu verða varðir fyrir miklum kostnaði — sem er vel. En á því hafði Framsóknarflokkurinn ekki hugsun þegar hann jók greiðsluþátttöku sjúklinga verulega á spítölum.