136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[17:29]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal með mikilli ánægju láta útbúa súlurit fyrir hv. þingmann um það hvernig kjör aldraðra og lífeyrisþega hafa þróast meðan ég hef setið hér í stóli félags- og tryggingamálaráðherra í rúmlega eitt og hálft ár eða hvað það er. Það er sko nokkuð sem ég skammast mín ekki fyrir. Þið gátuð ekki einu sinni komið á makatengingunni, afnumið hana, meðan þið voruð við stjórn. Það gerðum við þó eftir að þessi ríkisstjórn tók við. Frítekjumarkið hækkaði, við komum á frítekjumarki líka varðandi lífeyrisgreiðslur fyrir öryrkja, ég fór aðeins yfir það áðan.

Af því að hv. þingmaður talar um tíð mína sem félagsmálaráðherra er náttúrlega ágætt að hann viti það líka að samkvæmt ríkisreikningi hafa útgjöldin í þessum málaflokkum hækkað um 42% á sl. einu og hálfa ári. Hv. þingmaður svaraði því ekki sem ég spurði hann um og ég skora á hann að svara því: Vill hv. þingmaður minnka niðurskurðinn, vill hann auka útgjöldin? Hvar mundi hv. þingmaður skera niður?

Það þýðir ekki bara að tala um Varnarmálaskrifstofuna, eins og ég heyri hér aftur og aftur. Það eru peningar þar, það má vel nefna hana, en það nægir ekki í þann niðurskurð sem þarf. Það þarf að nefna fleiri hluti. Það þýðir ekki að koma hér, eins og hv. þingmaður gerði, og segja að verið sé að troða á öldruðum og öryrkjum þegar við höfum sýnt fram á að við höfum sérstaklega verið að verja kjör þeirra.

Útgjöld ríkisins eru 472 milljarðar, ef ég man það rétt. Ef við tökum saman hvað mikið fer til velferðarmála af því þá eru það 302 milljarðar eða tveir þriðju. Í þeim hremmingum (Forseti hringir.) sem við erum í hlýtur einhvers staðar að vera komið við velferðarkerfið en ég fullyrði að við höfum staðið vörð um þá sem verst standa í þeim hremmingum sem við erum í núna.