136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[17:31]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra bregður á þann leik eins og allir aðrir ráðherrar í þessari ríkisstjórn og spyr stjórnarandstöðuna: Hvar viljið þið skera niður? Við höfum einmitt verið að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir samráðsleysi. Stjórnarandstöðunni hefur ekki verið hleypt að því borði að móta fjárlög. Við höfum ekki einu sinni verið spurð. Ríkisstjórnin fer nefnilega sínu fram og hæstv. ráðherra er þar ekkert undanskilinn í þeim hópi.

Hæstv. ráðherra nefnir hér að aldraðir og öryrkjar hafi trúlega aldrei haft það eins gott. Ég spyr: Hvernig stendur þá á því að forsvarsmenn Alþýðusambands Íslands og eldri borgarar og öryrkjar mótmæla því harðlega hvernig hæstv. ráðherra hefur staðið að samningagerð gagnvart þessum hópum eða samningagerð gagnvart þeirra eigin kjarasamningi þar sem viðmiðið var lækkað um heila 3,9 milljarða? Það voru ekki samningaviðræður. Nei, hæstv. ráðherra kallaði fulltrúa þessara félagasamtaka á sinn fund og tilkynnti þeim að viðmiðið hefði verið lækkað.

Hæstv. ráðherra getur komið hér upp og sagt að hér sé allt í besta standi og hlutirnir hafi aldrei verið eins góðir og nú þegar hæstv. ráðherra hefur verið félagsmálaráðherra. Tölurnar sýna það einfaldlega ekki. Sá niðurskurður sem ráðherra hefur beitt sér fyrir á síðustu mánuðum, ég nefni hérna tvö dæmi, lækkunin á viðmiðuninni 3,9 milljarðar og þessi bandormur hér upp á 4,9 milljarða gera 8,8 milljarða kr. Það er það sem forsvarsmenn aldraðra og öryrkja hafa verið að mótmæla harðlega. Hæstv. ráðherra getur líka komið hingað upp og eytt meira en helmingnum af ræðutíma sínum í að tala um hvað hafi gerst á síðustu 12 eða 14 árum. Það gagnast einfaldlega ekki fólki í dag. Eins og ég segi, hæstv. forseti, (Forseti hringir.) ég hvet hæstv. ráðherra sem ég veit að hefur góðan hug til þessa málaflokks en hefur greinilega ekki stuðning innan ríkisstjórnarinnar, ég brýni hana hér til góðra verka (Forseti hringir.) í þessum efnum og þar þarf að bæta verulega úr.