136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[17:52]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Við fjöllum hér um svokallaðan bandorm, sem er frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Þar er farið inn á ýmis núgildandi lög sem verður að breyta til að koma fjárlagafrumvarpinu og þeim aðgerðum sem hæstv. ríkisstjórn stendur núna fyrir í gegn með löglegum hætti. Breyta þarf ýmsum lögum eins og komið hefur fram.

Þetta eru misþungar aðgerðir en sumar eru ansi þungar og munu taka í. Þá vil ég sérstaklega nefna kjör bænda sem munu skerðast umtalsvert þegar taka á í burtu vísitölutryggingu á greiðslu til þeirra varðandi afurðalánin. Bændur hafa ekki verið sú stétt manna í þjóðfélaginu sem fleytti rjómann í góðærinu. Þeir hafa talið sig standa nokkuð betur að vígi núna vegna þeirrar verðtryggingar sem þeir hafa haft á búfjárgreiðslum sínum en nú á að taka hana af.

Hæstv. forseti. Það er góð ástæða fyrir því að ég kem í ræðustól. Ég vil nefna alveg sérstaklega og mótmæla þeirri breytingu sem gera á varðandi gjaldtöku á sjúklinga, þ.e. að ætla sér að taka gjald af sjúklingum sem lagðir eru inn á sjúkrahús. Þetta er gert, að sagt er, til að halda jafnræðisreglu miðað við aðra gjaldtöku en ef við lítum aðeins aftur í tímann hefur jafnræðisreglan skrúfast upp á við í staðinn fyrir að vera bremsuð niður til að hún verði eins og hún var áður.

Það eru ekki mörg ár síðan heilsugæslan var gjaldfrjáls. Það hefur alltaf tíðkast að sjúklingar greiddu gjald ef þeir færu til sjálfstætt starfandi sérfræðinga og nytu þeirrar þjónustu. Eftir því sem starf sérfræðinga hefur eflst og tæknin breyst hafa þeir sérfræðingar sem starfa utan sjúkrahúsanna getað boðið upp á meiri þjónustu og þar hefur verið tekið gjald eftir gjaldskrá.

Á mörgum sviðum hefur þessi þjónusta verið sú sama og innt hefur verið af hendi á göngudeildum sjúkrahúsanna, þ.e. sjúklingar fara í meðferð við einhverjum sjúkdómum, leggjast inn á sjúkrahús og síðan þarf að sinna eftirliti eða framhaldsmeðferð sem þá er gerð í sparnaðarskyni á göngudeildum sjúkrahúsanna.

Þar töldu að hluta til sömu sérfræðingar og veita sérfræðiþjónustu utan sjúkrahúsanna að jafnræðisreglunni væri ekki beitt, ef verið væri að veita samsvarandi þjónustu á göngudeildunum ætti að taka gjald þar samkvæmt gjaldskrá.

Í staðinn fyrir að halda í þá reglu að sú þjónusta sem veitt er á göngudeildunum væri sú þjónusta sem er í einhvern tiltekinn tíma í framhaldi af þeirri meðferð sem veitt er á sjúkrahúsunum eftir innlögn, var farin sú leið að taka gjald á göngudeildunum. Nú á sem sé að nota jafnræðisregluna enn og aftur og beita henni með því að skrúfa þetta upp og koma þá gjaldi á innlagnir líka.

Er þetta ekki grátlegt? Að mínu viti er verið að seilast svo langt að það er í raun og veru þyngra en tárum taki. Þetta segi ég sérstaklega með tilliti til þess að við sjáum ekki hvernig útfæra á hugsanlegar breytingar á greiðslum, taka þegar upp nýtt kerfi hvað varðar greiðsluþátttöku sjúklinga í lyfjum og öðru slíku. Verið er að taka þessa greiðsluheimild inn á sjúkrahúsin en það er enginn sem gengur inn á sjúkrahús og leggur sig þar inn. Aftur á móti getur fólk gengið inn til sérfræðinga, pantað sér tíma og fengið þjónustu þar. Það tel ég að við hefðum miklu frekar átt að setja girðingar fyrir í sparnaðarskyni og hafa með einhverju móti hemil á því hversu auðveldlega fólk getur valið sér sérfræðinga. Við ættum að reyna að stjórna því eftir eðli sjúkdómanna og reyna að ná þar einhverjum sparnaði í staðinn fyrir að koma gjöldum yfir á sjúklinga sem þurfa að leggjast inn á sjúkrahús. Það leggst enginn inn á sjúkrahús öðruvísi en að það sé gert að læknisráði, t.d. með því að læknar leggi sjúklinga inn eða eftir bráðaslys eða önnur slys.

Ég verð bara að segja eins og er að það er ekki endilega upphæðin sem skiptir þarna máli, verið er að brjóta blað í heilbrigðismálum hér á landi með því að koma gjaldtöku yfir á þá sem síst skyldi. Við höfum talið okkur geta verið nokkuð stolt af því að þarna greiði samfélagið. Sjúkrahússþjónusta hefur verið það sem við höfum fjármagnað með sameiginlegum sköttum en nú á að taka hluta af því af sjúklingunum sjálfum.

Ég segi bara ekki annað en það, hæstv. forseti, að verði ríkisstjórninni að góðu að sitja uppi með þessa smán og að brjóta þetta blað. Ég óska þess heitt og innilega að hér komi ný ríkisstjórn sem hafi þá sýn að létta gjaldtöku af sjúklingum, gjaldtöku á heilbrigðisstofnunum, í heilbrigðisþjónustunni. Við reynum þá bara að stýra betur en gert er í dag aðgengi sjúklinga í ódýrari þjónustu, efla heilsugæsluna og gera hana gjaldfrjálsa, efla forvarnir og draga úr sjúkdómum og sjúkdómavæðingu. En að fella það vígi sem við höfum staðið vörð um tel ég ekki þessari ríkisstjórn til sóma frekar en margt annað sem verið er að gera í fjárlögunum og hinum svokallaða bandormi sem þeim fylgja.