136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[18:00]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða eitt af þeim málum sem ríkisstjórnin hefur séð ástæðu til að leggja fyrir þingið á síðustu dögum þess, fyrir fyrirhugað jólaleyfi, og kemur inn með þennan pakka með afbrigðum eins og sennilega 60–70% af öllum málum sem komið hafa fyrir þetta þing á þessu hausti. Þau koma inn með svokölluðum afbrigðum sem segir auðvitað að mál koma iðulega til meðferðar í þinginu undir mikilli tímapressu. Það hefur einkennt störf þingsins í haust að við höfum afgreitt hér ýmis lög og löggerninga á tiltölulega mjög skömmum tíma. Þessi ráðstöfun hér, frumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármálum, er oft kölluð einu nafni bandormur þegar verið er að breyta ýmsum lögum í einu og tengjast gerð fjárlaganna. Þau voru afgreidd eftir 2. umr. með atkvæðagreiðslu í dag undir athugasemdum okkar í stjórnarandstöðunni um að þar hefði eigi verið nægilega vandaður undirbúningur og margar upplýsingar hefði vantað varðandi fjárlagagerðina svo að vel væri að verki staðið og almennilega undirbúin þau mál sem verið er að vinna að.

Það eru nokkur atriði í þessu frumvarpi, hæstv. forseti, sem mig langar að víkja að. Í fyrsta lagi er rétt að vekja athygli á því að ríkisstjórnin hefur fundið hin breiðu bök. Hún fann þau hjá bændum landsins sem nú er ætlað að taka á sig verulega skerðingu miðað við það sem þeim hafði áður verið tryggt í svokölluðum búvörusamningum, þ.e. samningum við ríkið um það sem tengist framleiðslu bænda, sauðfjárframleiðslu, mjólkurframleiðslu og garðyrkju, en þetta eru þeir samningar sem einu nafni eru nefndir búvörusamningar. Þeir hafa á undanförnum árum verið stór þáttur í því annars vegar að reyna að tryggja stöðu bænda og tryggja þeim laun og hins vegar, sem hefur ekki verið lítill þáttur í okkar þjóðfélagi, að reyna að sjá til þess að bændur gætu komst af við störf sín án þess að sá kostnaður sem framleiðslunni fylgir færi út í verðlagið í auknum mæli í matvælaframleiðslunni, í búvörunni. Þar af leiðandi hafa samningarnir verið þáttur í því að halda niðri verðlagningu á landbúnaðarvörum hér á landi og til hagsbóta fyrir alla þjóðina.

Hér er sem sagt gengið á gerða samninga til að ná niður kostnaði ríkissjóðs og þessi stétt, bændurnir í landinu, hafa nú ekki haft úr of miklu að spila á undanförnum missirum vegna gengishreyfinga og hækkandi orkuverðs. Það er að vísu sem betur fer að lækka núna en ríkið sá þá einnig tækifæri þar til að ná í nýjar tekjur fyrir ríkissjóð með nýsettum lögum á Alþingi.

Ég verð að segja eins og er að ég tel það ekki góða aðferð að ganga á gerða samninga. Ég velti líka fyrir mér hvort sú aðgerð muni ekki hafa þau áhrif að verð á matvöru hækki sem síðan mælist inn í vísitöluna og verði til þess að hækka lán landsmanna í gegnum verðtryggingu vegna vísitöluviðmiðunar. Það er margt að athuga við þetta mál og þarf auðvitað að gaumgæfa þetta mjög vandlega í nefnd þegar farið verður yfir þessi mál.

Ég geri mér vel grein fyrir því, eins og ég sagði í ræðu minni í sambandi við fjárlögin, að ríkissjóður er í þeirri stöðu að þurfa að ná í nýjar tekjur. Hann er líka í þeirri stöðu að þurfa að draga úr kostnaði en við þurfum líka að horfa á hliðarverkanirnar við það sem af því leiðir þegar við breytum ákveðnum forsendum. Mér er til efs að það sem verið er að gera hér gagnvart bændum verði okkur til hagsbóta þegar upp er staðið ef við lítum annars vegar á væntanlega hækkað vöruverð í verslunum, því að einhvers staðar þurfa bændur að bæta sér upp þá skerðingu sem sett er á þá, og hins vegar hvernig það mun þá mælast inn í vísitöluna og verða til hækkunar á lágmarksskuldbindingum allra í landinu. Ekki er þar á bætandi og stefnir þar nú í misgengisátt.

Það er hins vegar alveg réttmæt spurning sem komið hefur fram úr þessum ræðustól í dag, hvort snúa eigi þessari aðferð við og miða við að ekki megi reikna hærra vísitölustig á hæstu lán en 5,7%, þar eigi menn að draga einhverja löglega línu um það sem mest megi reikna verðtryggingu í öllum lánum. Hér er verið að ákveða það, sýnist mér, í þessu máli eins og það snýr að bændum. Ég hef reyndar verið talsmaður þess í mörg ár og við höfum flutt um það margar tillögur í hv. þingi að menn tækju til við að skoða þetta verðtryggingarfyrirbæri okkar Íslendinga með það að markmiði að leggja það niður eða setja því verulegar skorður. Markmiðið yrði þá að stefna úr þeirri stöðu sem verðtryggingin hefur valdið og varðar skuldbindingar fólks.

Það er algjörlega ljóst að eins og nú stefnir í íslensku þjóðfélagi gengur hratt á eignastöðu fólks. Fólk hefur litið svo á að íbúðir þess væru ákveðinn lífeyrissjóður til framtíðar, þar eignaðist fólk smátt og smátt þó nokkra eign sem það gæti svo selt á efri árum þegar það þyrfti ekki á stóru húsnæði að halda, eins og iðulega er meðan fólk er með börn og þarf þess vegna stærra húsnæði. Þar af leiðandi hafa menn oft litið á eignamyndun í húsnæðiskerfinu sem hluta af lífeyrissjóði sínum.

Eins og nú stefnir er eignamyndun fólks í húsnæði sínu að hverfa og það er að myndast mikið misgengi á milli þróunar lánaskuldbindinga og þróunar tekna. Það er auðvitað mjög alvarlegt.

Hér eru einnig lagðar til skattahækkanir og sú leið er farin, eins og svo oft áður þegar Sjálfstæðisflokkurinn fer í skattalagabreytingar, að ákveðin er föst prósentutala flatt til að breyta sköttum. Á það hefur margsinnis verið bent að það væri ekki aðferðin til að jafna skattbyrðina í landinu í hlutfalli við greiðslustöðu fólks. Við höfum margsinnis bent á það í Frjálslynda flokknum og á persónuafsláttinn m.a. sem leið til að tryggja að allir hafi nægilegt fé til framfærslu, líka þeir sem lægst hafa launin. Við lögðum til á hv. Alþingi að persónuafslátturinn væri að sumu leyti tvískiptur og það væri sérstakur persónuafsláttur sem yrði til þess að fólk með 150.000 kr. tekjur greiddi enga skatta en síðan væri sérstakur persónuafsláttur þar fyrir ofan sem eyddist út þegar laun væru komin upp í 300.000. Þetta er reyndar sama tillaga og ASÍ var með í kjarasamningaviðræðum sínum en ríkisstjórnin lagðist gegn þegar síðasta samráð var við ríkisstjórnina um kjarasamninga um hvernig tryggja ætti stöðu láglaunafólksins í landinu. Hins vegar var farin sú leið að semja um fastar hækkanir í krónutölu á persónuafslættinum og sem betur fer er ekki ætlun ríkisstjórnarinnar að afnema það. En allt að einu mun þessi skattahækkun vera eins og allar skattahækkanir sem eru flatar en þær koma iðulega verr út fyrir þá sem lægri hafa launin.

Ég verð að spyrja enn og aftur, hæstv. forseti: Hvar er nú stefna Samfylkingarinnar um þrepaskipt skattkerfi? Af hverju var því ekki fylgt eftir núna? Við gerum okkur væntanlega öll grein fyrir því hér á hv. Alþingi að það þarf að afla ríkinu viðbótartekna á komandi árum. Undan því verður ekki vikist en það er ekki sama hvernig það er gert, það er ekki sama hvernig þeim byrðum er dreift. Við höfum m.a. bent á hvort ekki væri ástæða til að líta til hátekjuskattsins á nýjan leik til að jafna byrðunum við að afla ríkissjóði nýrra tekna.

Ég sé líka eina breytingu hér sem mér finnst réttlætanleg í núverandi stöðu og það er að breyta því ákvæði sem sett var inn á vormánuðum 2007 að afloknum alþingiskosningum. Sjálfstæðisflokkurinn setti hana fram sem sérstaka aðferð sína við að bæta kjör eldri borgara, þ.e. að setja inn sem reglu að þeir sem eru 70 ára og eldri megi hafa eins háar tekjur og þeir vilja í þjóðfélaginu án þess að þeir fái neina skerðingu. Nú er verið að fella þessa breytingu aftur út og setja þá sem eru sjötugir og eldri í sama hóp og aðra með ákveðin frítekjumörk sem núna eru um 100.000 kr. á mánuði. Í sjálfu sér tel ég það eðlilegt, mér fannst alltaf mjög óeðlilegt þegar það var sett í sérstakan forgang við lagfæringu á kjörum lífeyrisþega að þeir sem væru sjötugir mættu þess vegna hafa 20 millj. kr. í árslaun og fengju engar skerðingar á bætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Þeir fengju þær að fullu en hinir sem væru yngri en sjötugir, milli 67 og 70 ára, ættu að búa við skerðingar eftir sem áður. Við höfum ekki mikið við það að athuga að þessu sé breytt.

Við höfum heldur ekki mikið við það að athuga að viðmiðunarfjárhæðunum í fæðingarorlofi sé breytt. Ég tel það eðlilegt í núverandi stöðu ef verið er að leita leiða til að takast á við þær geysilegu byrðar sem skollið hafa á íslensku þjóðinni vegna fjárglæfranna — ég vil leyfa mér að kalla það svo — sé þeim byrðum dreift þar sem hægt er að finna tekjur án þess að ganga verulega á lífskjör fólks. Ég tel að breytingin varðandi fæðingarorlof, þ.e. að viðmiðunarfjárhæðin fari niður í 400.000 kr. á mánuði, geri það ekki.

Hér er komin inn ný skattlagning upp á 0,25 prósentustig sem er sérstaklega ætlað að renna til sveitarfélaganna, upp á 1 milljarð kr. í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Ég tek undir að það var nauðsynlegt að koma fjármunum út til sveitarfélaganna. Hvort það átti að gera það með flatri skattahækkun leyfi ég mér hins vegar að efast um og bendi á að ég tel að við eigum alltaf að leitast við að dreifa skattbyrðunum sem réttlátast á þegna landsins.

Hæstv. forseti. Ég sé að tími minn flýgur frá mér við þessa umræðu og mun mér ekki takast að fara yfir allt það sem ég hefði viljað víkja að en hef bent á nokkur atriði sem ég tel að þurfi sérstaklega að gaumgæfa. Þar vil ég síðan bæta við komugjöldunum á sjúklinga sem á að leggja hér á samkvæmt þessu frumvarpi og gefa 360 millj. kr. í nýjar tekjur.