136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[18:15]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, frumvarp sem stundum hefur verið skírskotað til sem bandorms því að þar kennir ýmissa grasa.

Ég kvaddi mér hljóðs í umræðunni fyrr í dag, í andsvari við hæstv. forsætisráðherra, og vék sérstaklega að 17. gr. lagafrumvarpsins þar sem veitt er heimild til innheimtu gjalda fyrir legu á sjúkrahúsum. Hér er því miður, hæstv. forseti, verið að brjóta blað með neikvæðum formerkjum í sögu heilbrigðismála á Íslandi. Það hefur ekki tíðkast að fólk sé krafið um aðgangseyri þegar það kemur veikt inn á sjúkrastofnanir landsins. Hæstv. forsætisráðherra sagði að þetta ætti ekki að bitna á frísku fólki, sem hljómaði undarlega í eyrum þeirra sem átta sig á því að verið er að fjalla um veikindi, svo veikt fólk að það þarf að leggja það inn á sjúkrahús — og nú á að rukka það.

Skýringar hæstv. forsætisráðherra urðu mér umhugsunarefni því að í ljós kom að hann réttlætir þessar ráðstafanir með skírskotun til bókhalds, að verið sé að gæta að og leita eftir samræmi í bókhaldi. Það sé nefnilega svo víða rukkað á göngum spítalanna en gleymst hafi að rukka fyrir það að leggjast inn í sjúkrarúm. Nú þurfi að bæta úr því til að gæta að jafnræði og passa upp á bókhaldið, þannig að allt sé með sama hætti, öll gjaldtaka innan veggja sjúkrahúsanna.

Ég minnti hæstv. forsvarsmann ríkisstjórnarinnar á að flokkur hans, og sú ríkisstjórn sem nú fer með völd í landinu, hefði margoft sagt, bæði hér í sölum Alþingis og einnig utan veggja þingsins, að stefnumarkmið ríkisstjórnarinnar væri að heilbrigðisþjónustan væri gjaldfrjáls. Ríkisstjórnin mundi að sönnu leita eftir aukinni fjölbreytni í rekstri heilbrigðiskerfisins, og jafnvel vera reiðubúin að nýta markaðslausnir í því efni, en hvað gjaldtöku áhrærir yrði stefnt að því að hún kæmi öll úr vasa skattborgarans, sjúklingarnir yrðu ekki látnir borga brúsann. Okkur hefur verið sagt að þetta væri stefna Sjálfstæðisflokksins. Okkur hefur verið sagt að þetta væri stefna ríkisstjórnarinnar og að sjálfsögðu Samfylkingarinnar sem lét kjósa sig á þeim forsendum að hún væri að leita eftir stuðningi þjóðarinnar svo að hún gæti komið velferðarbaráttumálum sínum í höfn, m.a. gjaldfrjálsu heilbrigðiskerfi. Þetta var okkur sagt. Nú birtist hins vegar í verki sá ásetningur ríkisstjórnarinnar að auka gjaldtökur. Allt er það í einhverju bókhaldsbrelluskyni.

Hæstv. forsætisráðherra vísaði í nefnd sem nú er að störfum undir forsæti hv. þm. Péturs H. Blöndals og hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur. Þarna væru fulltrúar beggja stjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, og nefndin væri að komast að niðurstöðu. Nú vill svo til að ég á sæti í umræddri nefnd og þekki vel til starfa hennar. Það sem vakir fyrir þessari ágætu nefnd er að koma á nýju greiðslufyrirkomulagi í heilbrigðiskerfinu með samræmingu að markmiði. Sitthvað er þar ágætt að finna, sem ég get og skrifað upp á, að sett verði þak á gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu og horft til allra þátta kerfisins. Það er vissulega staðreynd að sjúklingar greiða á ýmsum sviðum vegna sjúkdóma sinna, á heilsugæslustöðvum, við þjónustu á spítulunum, á göngudeildum sjúkrahúsanna, lyfjakostnað og þar fram eftir götunum. Ég er því vissulega fylgjandi að málin verði skoðuð heildstætt og þak sett á þessa gjaldtöku. Það er allt góðra gjalda vert, upp á það get ég skrifað.

Vandinn verður síðan til því að okkur er sagt að þetta eigi að gera til að jafna byrðarnar. Já, gott og vel. Jafna byrðarnar í þjóðfélaginu? Nei, innan sjúklingahópsins. Það er mengið sem nefndin horfir til, sjúklingahópurinn. Okkur var sagt í nefndinni að ekki stæði til að lækka þessi gjöld heildstætt heldur dreifa þeim á annan veg. Nú er reyndar að koma á daginn að verið er að stórauka gjaldtöku á sjúklingum sem samkvæmt frumvarpinu skrifast á annan milljarð króna, það er staðreynd, gott ef það eru ekki 1,2 milljarðar að hluta til í lyfjakostnaði og að hluta til í gjaldtöku á heilbrigðisstofnunum. Nú er þetta að birtast okkur hérna — nú hristir hæstv. heilbrigðisráðherra höfuðið svona álíka mikið og af álíka miklum krafti og þegar hann neitaði því að send hefði verið út tilskipun frá fjármálaráðuneytinu á sínum tíma, um flatan 10% niðurskurð, nokkuð sem síðan var áframsent af hálfu ráðuneytis hans og síðan, af hálfu sama ráðuneytis, fagnað þegar menn fóru að bregðast við með niðurskurðarhnífinn á lofti.

Þetta er svona, það er verið að tala um að jafna eða dreifa byrðunum á annan hátt innan sjúklingahópsins. Ég spurði að því á sínum tíma hvort þá stæði til að fara að taka gjald af sjúklingum á spítulunum sem ekki greiddu slík gjöld núna, þar á meðal fyrir innlagnir á spítala. Svarið var já, og nú er þetta að birtast okkur.

Í nefndinni hafa orðið mjög umhugsunarverðar umræður. Spurt hefur verið hvort forsvarsmenn nefndarinnar, talsmenn hennar, formaður hennar, væru því fylgjandi að auglýsingar yrðu leyfðar, að læknum yrði heimilað að auglýsa þjónustu sína. Jú, hv. þm. Pétur H. Blöndal er því mjög fylgjandi. Og á hvaða grundvelli eiga þeir síðan að auglýsa þjónustu sína? Á grundvelli gæða væntanlega og á grundvelli verðlags. Við hvað á þá ríkið að miða í stuðningi sínum við lækna og heilbrigðisþjónustuna? Jú, eitthvert lágmarksverð. Þá erum við komin ansi nálægt því sem tíðkast hjá tannlæknum þar sem ríkið greiðir ákveðinn grunn en það sem upp á vantar á síðan að vera háð samkeppni. Undir þessi auglýsingasjónarmið hafa talsmenn Samfylkingarinnar ýmsir skrifað. Vísa ég þar í varaformann Samfylkingarinnar, hv. 4. þm. Reykv. s., Ágúst Ólaf Ágústsson. Við gjöldum varhuga við þessu.

Ég vek enn og aftur athygli á þeim mótsögnum sem birtast í málflutningi ríkisstjórnarinnar, Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar, annars vegar og í gjörðum þeirra hins vegar. Þar stangast allt á. Annars vegar heita þeir þjóðinni heilbrigðisþjónustu sem á að vera gjaldfrjáls og síðan framkvæma verkin á þann veg sem birtist okkur í 17. gr. þess frumvarps sem hér er til umræðu.

Ég er orðinn óskaplega spenntur, hæstv. forseti, að sjá hver afurðin verður af öllum þessum hristingi á höfði hæstv. heilbrigðisráðherra. Hann hristir svo ákaft höfuðið undir málflutningi mínum. Er þetta rangt sem ég held fram? Er það rangt sem ég held fram um áherslur í nefnd hv. þm. Péturs H. Blöndals, um að jafna eigi kjörin innan sjúklingahópsins en ekki horfa á þjóðfélagið heildstætt? Er það rangt sem hann hefur sagt að ekki eigi að draga úr heildarkostnaði sem sjúklingar greiða heldur jafna byrðarnar innbyrðis? Er það rangt sem ég segi hvað þetta snertir? Ég held ekki. Ég held ég hafi verið sæmilega vakandi á öllum þeim fundum nefndarinnar sem ég hef setið.

Ég get líka upplýst hæstv. heilbrigðisráðherra um það að þegar þessi mál hafa komið til umfjöllunar á opinberum vettvangi, m.a. á ráðstefnu sem Öryrkjabandalagið og fleiri aðilar stóðu að ásamt heilbrigðisráðuneytinu, þá sætti þessi aðferð, að hefja gjaldtöku hjá sjúklingum sem ekki borga gjald fyrir þjónustu núna, mikilli gagnrýni. Því miður var hæstv. heilbrigðisráðherra horfinn af vettvangi þegar sú gagnrýni kom fram. Hann hlustaði á sjálfan sig og fulltrúa ráðuneytanna tala en þegar gagnrýni sjúklingahópanna fór að koma fram, í umræðum á þessu málþingi, var hann horfinn á braut. Hann hefur kannski ekki heyrt þessa gagnrýni sem ég get fullvissað hann um að er mjög mikil og er vaxandi meðal þess fólks sem núna greiðir ekki gjöld í heilbrigðiskerfinu en yrði rukkað þegar þessar ráðstafanir yrðu að veruleika.

Ég ítreka hitt, og það hef ég alltaf tekið undir, að ráðstafanir sem verða þess valdandi að þakið lækkar hjá einhverjum hópi finnst mér góðar. Ég er þeirrar skoðunar að afnema eigi gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu almennt. Spurningin stendur nefnilega ekki um það hvort við ætlum að hafa þessa þjónustu eður ei. Við erum öll sammála um það, íslenska þjóðin er sammála um að reka öflugt og kröftugt heilbrigðiskerfi. Það sem við deilum um er hvernig við ætlum að greiða fyrir það. Eigum við að greiða fyrir það í gegnum skattkerfið, borga til þess meðan við erum heilbrigð og aflögufær, þegar við erum vinnandi, eða á að bíða þangað til við verðum veik? Frumvarpið gengur út á það að bíða þar til fólk verður veikt. Þegar það leggst inn á sjúkrahúsið er reiknivélin reidd fram og farið að taka gjald fyrir. Við viljum taka þetta í gegnum almenna skattheimtu og dreifa þannig byrðinni á þjóðina alla. Þetta er nokkuð sem við eigum að forðast í lengstu lög, að þyngja byrðarnar á veiku fólki, það eigum við ekki að gera undir neinum kringumstæðum.

Því miður er ríkisstjórnin að kikna undan skipunum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem hefur skipað henni að draga úr halla á ríkissjóði á sama tíma og hún er að hlaða byrðunum á herðar skattborgara, ekki bara þeirra sem nú greiða skatta heldur komandi kynslóða einnig. Við fáum að vísu ekki upplýsingar um hverjar þessar byrðar eru en hitt vitum við að á næsta ári bendir allt til þess að vaxtabyrðin ein af þessari lántöku verði á annað hundrað milljarða króna.

Við þessar aðstæður eigum við að horfast í augu við þann veruleika að við verðum að taka því að mikill halli verði á fjárlögum. Ég hef lagt það til, alls staðar þar sem ég hef getað komið því við að koma þeim sjónarmiðum á framfæri, að lífeyrissjóðum landsmanna eigi í verulegum mæli að beina, þ.e. fjárfestingum þeirra, til ríkis og sveitarfélaga. Nú eigi að beina fjármagninu í að styrkja innviði samfélagsins. Þannig verðum við sterk. Þannig verðum við sterk til frambúðar. Það er besta fjárfestingin sem við getum lagt í.

Þær tillögur sem ríkisstjórnin læðir hér í skammdeginu inn í þingið, og ætlar að fá okkur til að samþykkja fyrir jólin, að byrja að leita ofan í vasann á veiku fólki uppi á Landspítala, á Sjúkrahúsinu á Akureyri og á öðrum sjúkrahúsum í landinu, finnst mér af og frá. Ég spyr: Hafa allir þingmenn kynnt sér það frumvarp sem ætlast er til að þingið samþykki? Er það virkilega skoðun þingmanna Sjálfstæðisflokksins að rukka eigi fólk sem leggst veikt inn á Landspítalann eða inn á önnur sjúkrahús (Forseti hringir.) landsins? Er það skoðun Samfylkingarinnar að svo eigi að verða? Ég skora (Forseti hringir.) á þingmenn sem allra flesta til (Forseti hringir.) að koma í pontu og gera greina fyrir sjónarmiðum sínum í þessu efni.

(Forseti (ÞBack): Forseti biðst velvirðingar á því en það var bilun í klukkunni og rauða ljósið lét ekki á sér standa þegar tíminn var útrunninn.)