136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[18:34]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. heilbrigðisráðherra lýsti því yfir að það væri sársaukalaust af hans hálfu að þurfa að greiða eitthvað fyrir læknisþjónustu. Það er skoðun, allt í lagi, hann getur haft þá skoðun, ég get haft aðra skoðun. En hann gerði annað og meira. Hann sagði að ég færi mjög frjálslega með staðreyndir. Á hvern hátt fór ég frjálslega með staðreyndir? Hann vísaði til nefndar sem er að endurskoða greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu og að þar sætu fulltrúar allra flokka. Ég sit í þeirri nefnd og tel að ég hafi unnið nokkuð vel í þeirri nefnd, ég hef kynnt mér þau gögn sem liggja fyrir nefndinni. Á hvern hátt nákvæmlega fór ég frjálslega með staðreyndir?