136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[18:35]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi, svo ég taki bara nokkra þætti, talaði hv. þingmaður um að við hefðum lofað gjaldfrelsi. Ég kannast ekki við það. Í annan stað talaði hann um það enn og aftur að send hefði verið tilskipun, ég átta mig ekki á hvort það var frá fjármálaráðuneytinu eða heilbrigðisráðuneytinu, um að það ætti að spara um 10%. Það er ekki rétt eins og margoft hefur komið fram. Hins vegar voru öllum forstöðumönnum sendar hugmyndir um sparnað sem næmi 10% af rekstrarkostnaði. Þetta hefur margoft komið fram, enda vita menn sem fjalla um fjárlögin að það er engin tilskipun um 10% niðurskurð.

Síðan talaði hann um að það væru sjúklingagjöld upp á 1,2 milljarða í þessum bandormi og því sem liggur fyrir þinginu. Eins og menn vita erum við að reyna að ná niður kostnaði, aðeins lítið brot af þessum 1,2 milljörðum snýr að greiðslum sjúklinga en við erum hins vegar að reyna að lækka lyfjakostnað. Ég mundi ætla að þokkaleg samstaða væri um það í þinginu en kannski er það ekki. Það er gert með öðru móti en því að taka aukin gjöld af sjúklingum ef þess er nokkur kostur eins og kemur fram í textanum.

Loks segir hv. þingmaður að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn skipi okkur fyrir verkum og að við séum að kikna í hnjáliðunum, eða hvernig hann orðaði það, við að minnka fjárlagahallann. Það liggur fyrir og það er alveg sama hvaða ríkisstjórn væri hér og hvaða leið hún færi, að þegar tekjuforsendur bresta þurfa menn að ná endum saman. Það er algerlega óumdeilt og menn eiga ekki að ræða það öðruvísi. Í flestum löndum þar sem menn takast á við sambærileg vandamál þá eru stjórnmálamenn, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, það ábyrgir að þeir fara í það verkefni að reyna að vinna bug á vandanum en reyna ekki að gera sér pólitískan mat úr honum. Þess vegna legg ég þessa hluti fram með þeim hætti að það sé mjög sérkennilegt að halda því fram að við viljum koma á sama fyrirkomulagi og viðgengst hjá tannlæknum. Það er algerlega fráleitt enda erum við búin að reyna mikið til að ná þeim inn á samning en það hefur því miður ekki gengið. Svo ég taki bara nokkur brot af því sem hér var farið frjálslega með.