136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[20:10]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona að hæstv. ráðherra geri sér grein fyrir því að ég er að spyrja hæstv. ráðherra, ekki bara embættismenn ráðuneytisins. Ef hæstv. ráðherra hefur ekki skoðun eða veit ekki hvernig á að færa megingjaldahliðar ársins, ja, guð hjálpi mér þá.

Þess vegna verð ég að árétta vegna Icesave-reikninganna, skuldbindingarnar vegna Icesave-reikninganna, voru það ekki skuldbindingar sem hæstv. ráðherra skrifaði undir úti í New York, t.d. við Hollendinga? Er það ekki hluti af þeim skuldbindingum sem tengdust lántöku hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og var skilyrði? Þau lán og þær skuldbindingar sem komin eru nú þegar inn vegna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins vantar líka í þetta frumvarp. Þetta er bara ein enn sönnun á því hvernig vinnubrögð ríkisstjórnarinnar eru.

Ég vil árétta það og spyrja hæstv. ráðherra sem ráðherra: Eiga þessar upphæðir ekki að koma inn? Er þetta ekki hluti af skuldbindingum þessa árs? Er einhver vafi á því? Ég tel að þetta sé hluti af skuldbindingum þessa árs og eigi að koma inn á fjáraukalög ársins 2008. Ég verð því fyrir miklum vonbrigðum, frú forseti, á viðbrögðum hæstv. ráðherra.

Eitt vil ég líka spyrja um: Við höfum ítrekað kallað eftir niðurstöðu eða áætlaðri niðurstöðu á rekstri stofnana og viðfangsefna á vegum ríkisins í árslok til að hægt sé að meta fjáraukalagaþörfina. Við höfum ekki fengið þær upplýsingar. Samt er hér verið að skera af halla af (Forseti hringir.) ríkisstofnunum og talað um að það séu um það bil tveir þriðju. Er ekki hægt að fá lista yfir stöðu ríkisstofnananna, áætlaðan í árslok, þar sem er þá jafnvel stuðst við þessa fjárlagagerð, frú forseti?