136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[20:13]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þessum spurningum svaraði ég líka í ræðunni. Það er vafi á því hvort það eigi að færa tiltekna liði í fjáraukalagafrumvarpi fyrir 2008 eða fjárlögum 2009. Það er m.a. vegna þess að þó að við tölum um að bankarnir séu fallnir þá hafa þeir ekki formlega verið gerðir gjaldþrota og tölurnar sem þarf að færa liggja heldur ekki endanlega fyrir, eins og ég sagði áðan. Það er verið að reyna að fara yfir þetta eins vel og mögulegt er og komast að sem sannastri niðurstöðu þannig að það sé hægt að láta tölurnar endurspeglast á sem réttastan hátt. Við munum vera tilbúin með tillögur um það áður en afgreiðslu þessara frumvarpa verður lokið hér í þinginu.