136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[20:14]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hæstv. fjármálaráðherra hefur hér mælt fyrir frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2008. Eins og fram kom hjá ráðherra vantar marga meginþætti þessa fjáraukalagafrumvarps sem lúta að því sem hefur gerst hér í efnahagslífi þjóðarinnar, t.d. kostnað vegna bankahrunsins og stofnun nýrra banka með aðkomu ríkisins. Það allt vantar inn í þetta frumvarp. Þar erum við að tala kannski um hundruð milljarða kr., jafnvel þúsundir milljarða.

Ég minntist á það í andsvari mínu að þetta er ekki aðeins um yfirtöku og hlutafé sem ríkið lagði til, þetta er líka um eigið fé sem ríkið lagði til, þetta er líka um þær skuldbindingar sem íslenska ríkisstjórnin og einstakir ráðherrar hafa komið á ríkissjóð með undirskriftum og bréfum vítt og breitt um heiminn, í New York og í Evrópu, ábyrgðir á svokölluðum Icesave-reikningum. Þá bregst mér minni ef ekki er skýrt á um það kveðið í lögum um fjárreiður ríkisins og í stjórnarskránni, í fyrsta lagi að ekkert gjald megi binda ríkissjóð nema fyrir því hafi fengist heimild hjá Alþingi. Í öðru lagi ber að færa slíkar skuldbindingar til gjalda á því ári sem til þeirra er stofnað.

Ég vildi aðeins, frú forseti, víkja að þessu frumvarpi. Ég er hér með fjáraukalagafrumvarp fyrir árið 2008, sem er gert til þess að gera upp reikninginn, það sem vantaði á og hefur komið fram frá því að fjárlög fyrir árið 2008 voru samþykkt fyrir um ári síðan. Í upphafi nefndarálits, sem skilað var við umræðuna þá, stendur, með leyfi forseta — ég verð að fá að vitna til þess nefndarálits sem við stóðum að, ég og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson og ég skilaði við fjárlagafrumvarpið.

Með leyfi forseta, byrjar þetta nefndarálit svona fyrir ári síðan:

„Óvenju mikið umrót og óvissa í efnahagsmálum og aðsteðjandi vandamál í hagstjórn marka allt efnahagsumhverfið við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2008. Ljóst er að orsakir þess vanda sem nú er við að glíma er annars vegar að leita í mistökum í fortíðinni, í tíð fyrri ríkisstjórnar sem skellti skollaeyrum við varnaðarorðum og stuðlaði að gríðarlegum stóriðjuframkvæmdum sem öllum var ljóst að mundu reyna mjög á hagstjórnartæki og þanþol efnahagslífsins. Nægir í því sambandi að vitna í varnaðarorð Seðlabankans og erlendra ráðgjafarstofnana á sviði efnahagsmála. Áform voru samt keyrð áfram með pólitískum ákvörðunum og þrýstingi þáverandi stjórnarflokka, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, og öll andstaða og varnaðarorð höfð að engu.

En fyrri ríkisstjórn lét ekki þar við sitja heldur lækkaði hún tekjuskatta mitt í þenslunni, einkum þó á hátekjufólk, sem hafði aukin áhrif til þenslu“ eins og áður hefur verið bent á.

Þegar maður sér síðan hver raunveruleikinn varð er það dapurt að hafa verið svona hryllilega sannspár. En þetta hefði líka átt að vera ríkisstjórninni til upplýsingar og til þess að fara eftir þegar fyrir lágu á þeim tíma af hálfu þingmanna stjórnarandstöðunnar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Frjálslynda flokksins, mjög sterk varnaðarorð um að við værum að sigla inn í mikla hættu.

Ég minnist þess síðan að þegar hæstv. forsætisráðherra kom í áramótaviðtal sitt á síðasta ári talaði hann um að stjórnarandstaðan hefði aldrei haft neitt vitlegt til að leggja í fjárlagaumræðunni. Já, forsætisráðherrann hefur verið býsna duglegur við að stinga höfðinu í sandinn og hamast við að aðhafast ekki neitt. (Gripið fram í.) Já, hann hefði sjálfsagt þess vegna getað stungið höfðinu í stein og aðhafst ekki neitt. Það hafa verið einkunnarorð þessarar ríkisstjórnar, það hafa verið einkunnarorð forsætisráðherra ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins að aðgerðaleysi sé best. Hve oft er hann búinn að segja á árinu að botninum sé náð? Ég held hins vegar að hann sjálfur sé kominn á botninn og sé ekki hvernig hann fer þaðan upp.

Ég minntist á þættina varðandi fjáraukalagafrumvarpið, að það vantar öll meginatriði inn í frumvarpið sem lúta að hinum stærstu tölum. Það er ámælisvert því að það eru einmitt þessar tölur, þessar skuldbindingar sem við erum að ræða og takast á um og viljum vita hversu miklar verða við afgreiðslu fjárlaga. Aftur er það ríkisstjórnin sem heldur að aðgerðaleysið og athafnaleysið í þeim efnum sé best og skrifar undir upp á skuldbindingar hér og hvar.

Það er þó ýmislegt í þessu frumvarpi sem ég vildi inna eftir. Verið er að skera halla af mörgum stofnunum og er það vel. Ég er þeirrar skoðunar að í langflestum tilfellum sé það vel enda eru það stofnanir sem vitað var og fyrirsjáanlegt að mundu fara inn í árið með miklum halla. Þær voru sendar af stað með miklum halla enda sagði hæstv. fjármálaráðherra í framsöguræðu sinni að þetta væri uppsafnaður halli frá fyrri árum. Hvaða stofnanir var þarna um að ræða? Jú, flestallar heilsugæslustofnanir fóru inn í árið með fyrirsjáanlegum halla.

Ég er hér með með breytingartillögur sem við fluttum þá, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs varðandi einmitt þessar stofnanir. Við bentum á að það væri vanreiknaður kostnaður sem þær stæðu frammi fyrir. Við lögðum til viðbót við Sjúkrahúsið á Akureyri. Hver er raunin? Jú, að sjálfsögðu er eins og það lá fyrir, Sjúkrahúsið á Akureyri réði ekki við verkefni sín á þeim fjárveitingum sem það fékk. Heilsugæslustöðvarnar vítt og breitt um landið, þar með talin heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu, voru sendar inn í árið með nokkur hundruð millj. kr. halla, bæði uppsafnaðan halla og fyrirsjáanlegan hallarekstur. Heilbrigðisstofnun Austurlands einnig og svona má áfram telja.

Allmargar stofnanir fá því skorinn af nokkurn uppsafnaðan halla en hins vegar skil ég ekki á hvaða grunni það er gert. Þegar við spurðum eftir því í fjárlaganefnd í morgun sögðu fulltrúar fjármálaráðuneytisins að það hefði verið tekið eitthvað svona holt og bolt, svona sirka 2/3 af hallanum eða eitthvað svoleiðis. Gott og vel, en þegar við inntum þá eftir því hvort ekki væri hægt að fá þennan lista sem þyngdi áætlaða stöðu stofnananna í árslok var svarið nei, þá lá hann ekki fyrir. Það er þó grundvallaratriði ekki aðeins til þess að ganga frá fjáraukalögum heldur einnig til að áætla og geta gert sér grein fyrir fjárþörf viðkomandi stofnana og viðfangsefna á næsta ári.

Við höfum ítrekað kallað eftir þessum lista en ekki fengið hann. Ég vil enn ítreka við fjármálaráðherra sem ber ábyrgð á eðlilegum og nauðsynlegum skilum á gögnum og upplýsingum til fjárlaganefndar þannig að hún geti unnið sitt verk, að hann sjái til þess að þessi listi og þessi gögn berist fjárlaganefnd í umfjöllun sinni núna um frumvarp fjáraukalaga milli 1. og 2. umr.

Það má velta fyrir sér ýmsum liðum í þessu frumvarpi og ég ætla aðeins að minnast á nokkur þeirra. Ég vil þó minna á að grundvallarforsenda í fjárreiðulögum er sú að það á ekki að stofna til útgjalda eftir á samkvæmt fjáraukalögum. Þessi fjáraukalög sýna ef eitthvað er að fjárlagagerðinni er mjög ábótavant. Ég hef ítrekað lagt til á Alþingi og flutt um það tillögur að hér yrðu lögð fram fjáraukalög að vori sem tækju á þeim breytingum sem væru þegar orðnar á fjárskuldbindingum ríkisins og einnig á þeim breytingum sem gætu hafa gerst á árinu. Að þær væru fyrirsjáanlegar þannig að Alþingi ákvæði útgjöldin fyrir fram og samþykkti þau, eins og kveðið er á um bæði í fjárreiðulögum og í stjórnarskránni, en samþykkti ekki eða afgreiddi eftir á þegar orðinn hlut, eins og hér hefur einmitt verið að gerast.

Það eru allmargar stofnanir, eins og ég sagði, sem fá hér viðbót og ég get ekki rakið þær mjög ítarlega. Ég fagna því t.d. að tekið er á uppsöfnuðum rekstrarhalla Háskólans á Hólum sem var vitað að fór inn í árið með uppsafnaðan og fyrirsjáanlegan halla á árinu. Ég vona að það sem þar er gert ráð fyrir dugi til að dekka þann halla en við höfum ekki upplýsingar um það. Því miður er ekki búið að taka tillit til innbyggðs rekstrarhalla eða rekstrarfjárþarfar inni í fjárlögum næsta árs og af því hef ég áhyggjur.

Hins vegar vil ég minnast á að Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri er ekki hér inni en okkur hafði þó borist vitneskja um að þar sé verulegur uppsafnaður rekstrarhalli. Reyndar lá það fyrir við síðustu áramót og við bentum á það við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2008. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hvers vegna er ekki gert ráð fyrir í fjáraukalögum að mæta fjárþörf Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri? Mér finnst það mjög alvarlegt að það skuli ekki vera gert.

Þá vil ég líka spyrja hæstv. ráðherra, af því að í sértækum aðgerðum sem gripið var til í svokallaðri norðvesturnefnd og einnig í Vestfjarðanefndinni. Veitt var heimild á fjáraukalögum til að setja á fót gestastofur á Hornstrandafriðlandi og á Látrabjargi en síðan eru þær skornar niður á fjárlögum næsta árs. Sama er að segja um verkefni sem lúta að störfum norðvesturnefndar til að mæta uppsöfnuðum vanda vegna þessara landshluta, vegna neikvæðs hagvaxtar þar. Þeir hafa ekki haldið í við þensluna hér á suðvesturhorninu. Þá var gripið til aðgerða að gera sérstaka áætlun og í tillögunum er m.a. lagt til að sett séu tvö störf á Blönduósi sem tengist safnamálum og menningarstarfi í Húnavatnssýslum. Það er inni í fjáraukalögum samkvæmt þessu samkomulagi en síðan er það þurrkað út á fjárlögum sem voru til umfjöllunar í gær. Það eru því allmargar og miklar þversagnir í þessu frumvarpi.

Frú forseti. Þetta voru bara nokkur atriði um þetta frumvarp. Það fer til meðhöndlunar fjárlaganefndar en ég vil líka vekja athygli á því að vegna þess að frumvarpið kemur svo seint fram, sem ég tel að hafi verið ástæðulaust því að það eru ný gögn í þessu frumvarpi sem ekki voru komin fram um miðjan október. Ég spyr hæstv. ráðherra: Var þetta gert af ráðnum hug til að halda málum frá nefndinni og Alþingi eins og ríkisstjórnin tíðkar nú? Þá dreg ég í efa að fjárlaganefnd fái nauðsynlegan tíma til þess að fjalla um frumvarpið eins og þörf væri á, heldur verði það keyrt áfram að hætti ríkisstjórnarinnar sem hefur haft það sem einkunnarorð sín í vinnubrögðunum að vanvirða (Forseti hringir.) bæði þingræði (Forseti hringir.) og lýðræði í meðferð fjármála ríkisins.