136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[20:38]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Hægt er að taka undir það sem sagt hefur verið um fjáraukalagafrumvarpið fyrir árið 2008, það hefði mátt koma fyrr fram. Nauðsynlegt hefði verið að leggjast aðeins yfir plagg af þessu tagi til þess að ná almennilega áttum í því, ná því almennilega um hvað það fjallar. Ekki hefur reynst nægur tími í þinginu þessa daga sem liðnir eru, hvort þeir eru tveir eða þrír, síðan það var lagt fram. Í því sambandi má kannski nefna að full ástæða er til þess að skoða fjáraukalagafrumvarpið almennt í fagnefndum þingsins. Það hefur ekki verið til siðs. Fagnefndir þingsins fá til umfjöllunar viðeigandi kafla í fjárlagafrumvarpinu en það sama hefur ekki gilt sem vinnuregla um fjáraukalagafrumvarpið. Ég hefði talið að í þessu tilfelli, þegar svona hratt er unnið, hefði verið full þörf á því að taka hvern kafla fyrir í fagnefndunum til þess líka að fólk áttaði sig á samhengi hlutanna, áttaði sig á því á hvern hátt ríkisstjórnin er að leggja til að einstökum fagstofnunum verði bættur upp halli eða óvænt áföll á árinu sem nú er að líða og hvernig það „harmonerar“ við fjárlagafrumvarpið sem er til umfjöllunar um svipað leyti, á sama tíma.

Því er ekki að heilsa, hæstv. forseti, og verður eflaust ekki breytt frekar en mörgu öðru sem maður vildi svo gjarnan geta breytt hér á þessum síðustu dögum þingsins fyrir jólafrí, ef það verður eitthvað. Það er afar þungbært að horfa á tölurnar sem birtast í fjáraukalagafrumvarpinu, samdráttinn í skatttekjunum eða tekjunum almennt og það hvernig gjöldin hafa vaxið og hversu óhagstæður tekjujöfnuðurinn er, og margt má segja um það sem tengist þeim aðstæðum sem hér eru.

Mig langar til að segja nokkur orð um það sem ég las úr ræðu hæstv. fjármálaráðherra þegar hann talaði fyrir frumvarpinu hér rétt áðan. Í framsöguræðunni þótti mér — ja, ég vil meina að hæstv. fjármálaráðherra hafi reynt að fjarlægja sjálfan sig og sinn ráðherradóm þessu þingmáli með því hversu fjarrænn hann var í öllum þessum flutningi á málinu. Ég tek þannig undir þau orð sem hv. þm. Jón Bjarnason lét hér falla áðan, það var ekki að ósekju að hann talaði um að ráðherrann hafi flutt mál sitt sem embættismaður og svari fyrir frumvarpið sem embættismaður frekar en ráðherra í ríkisstjórn, sem hefur auðvitað alla ábyrgð á sínum herðum hvað varðar þingmálið og þennan fjárauka. Við þurfum að geta tekist á pólitískt við hæstv. ráðherra sem þarf að axla þá ábyrgð hér í ræðustóli Alþingis sem hann og ríkisstjórnin með réttu bera á því hvernig lagt er upp með málin.

Mig langar, hæstv. forseti, til að eyða þessum stutta ræðutíma að mestu leyti í eitt mál. Það er mál sem gerð er grein fyrir á bls. 107 í fjáraukalagafrumvarpinu og heyrir undir fjármálaráðuneytið sjálft og varðar bætur vegna misgjörða á vistheimilum fyrir börn. Fram kemur í frumvarpinu að sótt sé um 125 millj. kr. framlag til að greiða það sem kallað er sanngirnisbætur til þeirra sem orðið hafa fyrir varanlegu tjóni á vistheimilum fyrir börn og kostnað úrskurðarnefndar í þeim málum enda liggi fyrir skýrsla frá nefnd samkvæmt lögum nr. 26/2007 um að óforsvaranlega hafi verið staðið að málum við vistun á stofnunum eða heimilum í rekstri þess. Hér er skýrslan sem um ræðir, hæstv. forseti, skýrsla sem lögð var fram í febrúar 2008 upp á tæplega 360 blaðsíður. Það er sannarlega ófögur lesning.

Hæstv. forseti. Sú lesning er með þeim hætti að ég hefði haldið að annað og meira þyrfti til til að ljúka því máli sem hæstv. fjármálaráðherra er að reyna að ljúka hér í fjáraukalagafrumvarpinu. Ég hefði haldið að semja þyrfti um niðurstöðu en greinilega er sú leið ekki valin heldur kemur skipun að ofan frá hæstv. fjármálaráðherra um það að 125 millj. kr. skuli nægja í þessar sanngirnisbætur sem hann kallar svo og ekki bara bæturnar heldur líka í kostnað nefndar sem kölluð er úrskurðarnefnd í frumvarpinu.

Hvað á þessi úrskurðarnefnd að gera, hæstv. forseti? Hún á að meta skilyrði fyrir bótagreiðslum. Skilyrði bótagreiðslu samkvæmt fjáraukalagafrumvarpinu eru þau að umsækjandi hafi hlotið varanlegt tjón og leiddar séu líkur að því að það sé vegna vistunar á stofnun eða heimili sem undir fyrrnefnd lög fellur vegna illrar meðferðar eða ofbeldis af hendi starfsmanna þar eða annarra vistmanna. Umtalsverður hluti — og ég hefði gaman af að heyra frá hæstv. fjármálaráðherra hversu stór hluti það verði — á því að fara í kostnað við þessa nefnd.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að ég verð fyrir mjög miklum vonbrigðum með að lesa þetta hér í fjáraukalagafrumvarpinu. Ég veit að Breiðavíkursamtökin gerðu sér vonir um að einhverju samkomulagi um þessar bótagreiðslur yrði náð og hafi haft fulla ástæðu til að ætla að samningar mundu nást. Ég harma því að samningaborðið skuli hafi verið yfirgefið, ef það hefur þá yfir höfuð einhvern tíma verið ætlun ríkisstjórnarinnar að semja um þessar bótagreiðslur.

Við erum að ræða hér um börn, sennilega 100 börn, sem vistuð voru á Breiðavíkurheimilinu á því tímabili sem um ræðir. Segjum að 100 einstaklingar eigi rétt til bóta og þá erum við að tala um að 1 millj. kr. komi kannski í hlut hvers um sig. Og hvað er nú verið að tala um að bæta fólki sem þurfti að þola frelsissviptingu í æsku, ólöglega frelsissviptingu sem er brot á friðhelgi einkalífs og fjölskyldu? Og við skulum vera þess minnug að það voru ekki bara drengir á glapstigum sem lentu á Breiðavíkurheimilinu, það voru líka drengir frá fátækum heimilum, hæstv. forseti. Þetta var staður sem var svo einangraður að tengsl barnanna við fjölskyldur sínar rofnuðu gjörsamlega og bara það er andstætt meginreglu flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna sem við erum skuldbundin til að fara eftir og vorum skuldbundin til þess þegar brotin voru framin gagnvart þeim drengjum sem í hlut eiga. Það er prinsipp flóttamannasamningsins að sameina fjölskyldur en sundra þeim ekki.

Drengirnir áttu ekki einu sinni einkalíf í síma. Þeir voru sviptir rétti til menntunar. Þeir voru ofþjakaðir af þungri og óhollri vinnu sem kalla má þrælkun en það er ekki bara brot á barnaverndarlögum núna heldur var það brot gegn barnaverndarlögum þess tíma. Það er líka bannað samkvæmt mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna að setja börn í þrælkunarvinnu. Þessi börn, sem svona var ástatt um, hæstv. forseti, fengu engan talsmann og þau þurftu að þola líkamlegar og andlegar refsingar og kynferðislega misneytingu ýmist af hálfu starfsmanna eða vistmanna. Eftirlitsskylda hins opinbera, bæði ríkis og sveitarfélaga, brást algerlega.

Hæstv. forseti. Bæði lagaleg og siðferðisleg ábyrgð hvílir á hinu opinbera, á ríki og sveitarfélögum. Ef hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnin telja sig komast upp með að afgreiða þetta mál með þessum hætti í fjáraukalagafrumvarpi seint um kvöld örfáum dögum áður en þing á að fara í jólafrí, reyndar eftir að þingið á að vera farið í jólafrí, þá eru það gríðarleg vonbrigði. Það eru líka vonbrigði að menn skuli ætla sér að hafa þetta vinnulag, þ.e. að láta drengina gangast undir eitthvert mat á því hjá einhverri úrskurðarnefnd hvort þeir hafi hlotið varanlegan skaða af þessari vist. Ég tel það stríða gegn því sem gert hefur verið í nágrannalöndum okkar, ég tel nánast ómögulegt að fara að setja fullorðna menn, sem þurftu að þola harðræði í æsku, í mat af því tagi sem hæstv. ríkisstjórn ætlar sér. Ég hefði haldið að eðlilegra væri að ákveða það einhliða að þessi dvöl hafi skaðað drengina og að dvalarmánuðirnir verði látnir ráða því hversu háar bæturnar verði. Ég hefði talið, hæstv. forseti, og langar til að segja það hér að bætur barna sem lentu í því harðræði sem dvölin á Breiðavíkurheimilinu var ættu að vera að minnsta kosti hálf til heil milljón fyrir hvern dvalarmánuð.

Ég vil rökstyðja það með því að ákveðin fordæmi séu fyrir þeirri upphæð. Ég tel að þau sé að finna í dómi sem gengið hefur vegna óheimilla ófrjósemisaðgerða sem gerðar voru hér á sjöunda áratugnum og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum, en þar voru bætur dæmdar einstaklingum allt að 10 millj. kr. Ég tel að hér sé um sambærilegt tilvik að ræða og ríkið geti ekki látið undir höfuð leggjast að bæta þessum einstaklingum það tjón sem þeir hafa orðið fyrir, þá æsku sem þeir fóru á mis við, kannski það líf sem þeir fóru á mis við með þeim hætti að sómi sé að.

Hæstv. forseti. Ég tel fullt tilefni til að spyrja út í ákveðna þætti í fjáraukalagafrumvarpinu en sé ekki að forsendur séu til þess að fara út í einstök atriði þessara mála hér. Ég hef þess vegna valið að helga ræðu mína þessu eina máli, sem heyrir undir hæstv. fjármálaráðherra og ráðuneyti hans, og treysti því að hann svari með einhverjum hætti gagnrýni minni sem ráðherra en ekki sem embættismaður og taki ábyrgð á því sem hann leggur til í þessu grafalvarlega máli. Ég hef þá lokið máli mínu, hæstv. forseti.