136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[20:55]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er víst kominn 16. desember þegar við tökum til við að ræða frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2008, einum 4–5 dögum eftir að Alþingi átti að ljúka störfum og verður varla sagt að það sé mjög snemma á ferðinni, þetta frumvarp.

Það hefði út af fyrir sig verið skiljanlegt ef ríkisstjórnin hefði meðvitað beðið með það til þess að taka inn í það allar þær breytingar sem hér hafa orðið og menn teldu rétt og skylt að taka inn í fjáraukalög vegna þess að þær skuli bókfæra á fjárlagaárinu 2008, en þeim mun meiri furðu vekur, eins og hv. þm. Jón Bjarnason kom reyndar inn á, að þegar frumvarpið loksins birtist hér og er tekið til umræðu, með afbrigðum eins og flest þessa dagana, er ekkert í því nema það sem lá í aðalatriðum fyrir strax í haust.

Það er afar sérkennilegt, frú forseti, að hér skuli þá ekki gerð tilraun til að taka á þeim hlutum sem væntanlega þarf og á að bókfæra samkvæmt okkar reglum, fjárreiðulögum og öðrum slíkum reglum á fjárlagaárinu 2008.

Hverju sætir það að áfallinn eða skuldbundinn kostnaður sem tengist efnahagshruninu skuli ekki vera einhvers staðar skráður? Ekkert annað en einhverjar lítils háttar breytingar á lántökum vegna hluta sem áttu sér stað í vor og sumar. Hvernig er t.d. með þau fjárútlát sem ríkið nú þegar hefur innt af höndum til að stofna nýju bankana? Þeir urðu ekki til úr engu. Einhverja peninga varð að setja inn í þá. Jú, heimild til þess er væntanlega í neyðarlögum, en á það ekki að færast inn í fjáraukalög samkvæmt venjulegum bókhaldsvenjum hér og reglum um fjárreiður ríkisins? Hvar er það að finna eða hvernig hugsar hæstv. fjármálaráðherra sér að hafa þetta? Kemur það við 2. umr. eða 3. umr.? Hvernig eru vinnubrögðin hugsuð í þessum efnum?

Varðandi þann halla sem hér er verið að takast á við í mikilvægum stofnunum eins og heilbrigðisstofnunum og menntastofnunum er einfalt um það að tala að því er lýtur að frágangi fjárlaga fyrir yfirstandandi ár hér á svipuðum tíma fyrir ári, að þar er nokkurn veginn nákvæmlega á ferðinni sú vanáætlun sem þá var bent á og allir vissu að var á ferðinni, vanáætlun á stærstu heilbrigðisstofnanirnar eins og Landspítalann, Sjúkrahúsið á Akureyri og Heilsugæsluna. Þá lá líka fyrir eins og það liggur fyrir núna að sumar þessara stofnana voru að draga langan og erfiðan skuldahala sem mundi að sjálfsögðu ekki gufa upp af sjálfu sér og óumflýjanlegt var að takast á við og gera þessum stofnunum kleift að ráða niðurlögum á.

Þessir hlutir snúa að því liðna, að því hvernig fjárlög voru eins og stundum áður, því miður, sett saman á óraunhæfum forsendum fyrir ári. Í raun var engin sérstök tilraun gerð til þess að takast á við það frekar en stundum áður.

Þegar kemur hins vegar að því sem gerst hefur á síðustu mánuðum og horfunum fram að áramótum, og eru nú ekki margir dagar eftir, er það auðvitað allt annað mál. Þá verður að horfast í augu við umtalsverðan tekjusamdrátt nú á síðustu mánuðum ársins vegna þess hvernig hefur snarhægt á í hagkerfinu og vegna hinnar miklu hagsveiflu niður á við. Það rifjar upp fyrir mér að hér við umræður um fjárlaga- eða fjáraukalagafrumvarp, hvort heldur var, í fyrra, í fyrri hluta desembermánaðar, var ég hér að fylgjast með umræðum og hafði ekki endilega hugsað mér að taka þátt í þeim sjálfur en þá fóru nokkrir ræðumenn í ræðustól og höfðu aðallega af því áhyggjur að tekjur ríkissjóðs kynnu að verða vanáætlaðar á árinu 2008 eins og hent hefði árin þar á undan, eitt eða tvö, þegar þenslan og vitleysan fór í himinhæðir og froðutekjur streymdu inn í ríkissjóð þannig að afkoma hans varð betri en menn höfðu áætlað og afgangurinn meiri.

Eitthvað sagði mér að því miður mundu þessir menn ekki hafa rétt fyrir sér og ég leyfði mér að segja að það yrði þá ekki mikið vandamál ef útslagið yrði á þá leiðina, að afkoma ríkissjóðs yrði betri á árinu 2008. Eitthvað sagði mér að því miður væru verulegar líkur á hinu gagnstæða. Og hver er niðurstaðan þegar það er skoðað? Jú, það kemur fram í umfjöllun um tekjur að afgangurinn sem menn montuðu sig af og átti að verða upp á tæpa 40 milljarða, ef minni mitt svíkur ekki, er kominn í 4,7 milljarða halla, sem sagt 44 milljarða sveifla til hins verra er nú áætluð fyrir ríkissjóð á árinu. Það munar um minna. Það eru meira en tveir þriðju af hinum frægu sölutekjum Landssímans svo eitthvað sé nú nefnt. Þar munar mest um að tekjuskattur lögaðila dregst harkalega saman og reyndar ýmsir fleiri tekjustofnar nokkuð eins og skattar á vöru og þjónustu.

Það skýrir þessa dapurlegu útkomu sem þarna stefnir í að verða og er þetta þó hátíð hjá því sem í vændum er, því miður.

Það er athyglisvert að um það má lesa í þessu plaggi að loftkastalar og ævintýramennska hæstv. ríkisstjórnar í heilbrigðismálum sem var hluti af myndun ríkisstjórnarinnar sem, eins og menn kannski muna, fór hér í ákaflega vanhugsaðar og illa undirbúnar breytingar á Stjórnarráði Íslands og stefndi í kjölfarið á skipulagsbreytingar í heilbrigðismálum sem ganga ekki par vel, að sagt er, logar allt í illindum og ósætti milli stofnana og milli ráðherra um þau mál. Þetta kostar heilmikla peninga og þarna setur hæstv. fjármálaráðherra inn í frumvarpið tillögu um viðbótarframlag inn í þennan kostnað upp á 25 millj. kr. vegna ráðgjafarkostnaðar við undirbúning breytinga í heilbrigðis- og tryggingamálum. Síðan hefur verið upplýst að árlegur kostnaður vegna þessara breytinga, að kljúfa þetta upp og semja nýjan hugbúnað og nýtt kerfi og aðgreina þetta og reka í tvennu lagi í staðinn fyrir á einum stað, í Tryggingastofnun eins og verið hefur, sé 200–250 millj. kr. á ári. Þegar hæstv. forsætisráðherra kom hér og sagði að þessar tölur væru fjarri sanni var honum vinsamlega bent á að þeir sem væntanlega hvað gerst til þekkja, eins og forstjóri Tryggingastofnunar, segja að inn í þetta vanti kostnað sem lendi á þeirri stofnun. Hún hefur borið hitann og þungann af því að undirbúa þetta en fjárveitingarnar fara í nýja gælubarnið Sjúkratryggingastofnun. Með öðrum orðum telja menn sig hafa efni á þessu rugli á sama tíma og þeir blóðskera hér niður með tilfinnanlegum hætti ýmsa aðra hluti. Getur nú ekki hæstv. fjármálaráðherra tekið einu sinni á sig rögg og tekið af skarið og sagt, nei, við hættum við þetta? Þetta kemur til með að kosta okkur stórfé, þetta hefur ekkert skapað nema illindi og þarna getum við þá a.m.k. sparað peninga.

Hverju sætir það að hæstv. fjármálaráðherra er ekki með sömu gleraugu á nefinu þegar hann fer inn í þennan málaflokk? Er það af því að þetta er sérstakt gæluverkefni einkavæðingarsinnanna í Sjálfstæðisflokknum og þar með heilagt? Þar með skal það blífa og fá viðbótarfjárveitingar í fjáraukalögum á sama tíma og menn eru hér með í höndunum frumvarp fyrir næsta ár þar sem allt er skorið niður við trog.

Ég vil líka segja alveg eins og er að ég var snarhissa þegar ég sá að það ætti að skerða fjárveitingar til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Eitthvað annað hélt ég að væri kannski skynsamlegt með hliðsjón af því sem í vændum er hjá þeim sjóði. En það á að skerða útgjöld þar um 3.000 millj. kr. vegna áætlunar um lægra atvinnuleysi en upphaflega var ráð fyrir gert, og auðvitað er gleðilegt að framan af árinu var slíku til að dreifa. Á móti koma 447 millj. kr. útgjöld sem tengdust kjarasamningum og hækkun lágmarksfjárhæðar, en væri nú ekki skynsamlegt að leyfa bara Atvinnuleysistryggingasjóði að halda þessu og eiga það í sjóði? Er það ekki rétt, herra forseti, að miðað við áætlanir um atvinnuleysi núna sem getur orðið allt að 10% í lok næsta árs stefni í að Atvinnuleysistryggingasjóður verði upp urinn á lokamánuðum næsta árs? Það hafa sagt mér glöggir menn sem þekkja til þess og hvert prósentustig í atvinnuleysi kostar um 3 milljarða króna. Þá er það tiltölulega einfalt reikningsdæmi. Hvers vegna er Atvinnuleysistryggingasjóður ekki látinn halda þessu og eiga það í handraðanum?

Um heilbrigðisstofnanirnar, sjúkrahúsin og heilsugæsluna, vil ég segja að mér finnst það dálítið merkilegt við þær aðstæður sem við stöndum frammi fyrir núna og vitandi það sem í vændum er, t.d. um gríðarlegan niðurskurð akkúrat á þessum lykilstofnunum, Sjúkrahúsinu á Akureyri, á Landspítalanum og í heilsugæslunni, sem eiga að taka á sig mjög tilfinnanlegan niðurskurð í fjárlögum næsta árs ef þau verða afgreidd á þeim nótum sem þau standa nú eftir 2. umr. og atkvæðagreiðslu, að skuldahali þessara stofnana skuli ekki bara tekinn af þeim að fullu þannig að þær standi þá skuldlausar um áramótin til að takast á við hinn hrikalega niðurskurð sem þær eiga svo að fara að glíma við. Ríkisstjórnin hefur búið sér hér til einhverja þumalputtareglu um að gera þetta u.þ.b. að tveimur þriðju. Af hverju er ekki bara gengið hreint til verks?

Er það ekki a.m.k. þannig að við eigum þessi fjárlög og fjáraukalög ársins 2008 í friði? Við ráðum einhverju um þetta sjálf því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er, að því ég best veit, ekki að skipa okkur beinlínis fyrir verkum hvað varðar meðferð mála á þessu ári. Og um það er ekkert að finna í biblíunni frá honum.

Ég minnist haustsins 1988 þegar ný ríkisstjórn tók til starfa, ef ég man rétt 28. september, við afar erfiðar aðstæður. Þá þurfti að taka til eftir Sjálfstæðisflokkinn eins og stundum áður og síðar, og miklir erfiðleikar voru fyrirsjáanlegir á komandi ári og blöstu við í fjárlagagerðinni sem í hönd fór um haustið. Þá var tekin sú niðurstaða að auðvelda mönnum að takast á við erfiðleikana á næsta fjárlagaári með því að láta menn a.m.k. ekki leggja af stað með þungbærar skuldir inn í það ár. Ýmiss konar óráðsíureikningar sem þá biðu og voru ógreiddir í ráðuneytum voru einfaldlega gerðir upp, en mönnum síðan gert það ljóst að þeir yrðu að takast á við þær naumt skornu fjárveitingar sem kæmu síðan í fjárlögum næsta árs og til þess væri ætlast. Þessu tóku menn almennt vel og brugðust vel við því að reyna að reka starfsemi sína með naumum fjárveitingum enda hafði þá verið komið til móts við aðstæður þeirra eins og þær sannanlega voru.

Nú er hér horfst í augu við t.d. það að ekki var hægt að reka Landspítalann með óbreyttri starfsemi fyrir þær fjárveitingar sem honum voru ætlaðar í fjárlögunum og talan nokkurn veginn sú sem talað var um hér, þ.e. að algert svartasta lágmark væri hún 700 millj. kr. í viðbót, helst milljarður til 1.200 millj. kr. Svipað var upp á teningunum gagnvart Sjúkrahúsinu á Akureyri, að þar væri í raun og veru vanáætlun, ég tala nú ekki um að teknu tilliti til skuldanna upp á um 300 millj. kr.

Heilsugæslan, nákvæmlega sama dæmi blasti við og í mörgum mikilvægum heilbrigðisstofnunum eins og t.d. Heilbrigðisstofnun Þingeyinga og Heilbrigðisstofnun Austurlands. Jú, hér munar vissulega um að höggvið er að tveimur þriðju hlutum til í halann ef þessu verður skipt á þeim nótum í þessum potti en þeim mun meiri sem hallinn var og erfiðleikarnir meiri eins og hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands, þeim mun stærri er þriðjungurinn sem eftir situr í hlutfalli við veltu viðkomandi stofnana.

Ég undrast að hæstv. ríkisstjórn skuli ekki ganga hreinlegar til verks, ég tel það vera mikil mistök og ég er alveg sannfærður um að forstöðumenn þessara stofnana yrðu samstarfsfúsari og viljugri ef þeir mættu skilningi að þessu leyti því að það er ekkert meira niðurdrepandi en að dragnast með gamla skuldahala ár eftir ár og sjá aldrei til lands. Það er það sem drepur menn mest niður. Fyrir því (Forseti hringir.) hef ég mörg vitnin og dæmin þegar maður hefur rætt við forstöðumenn stórra stofnana sem hafa búið við slíkt árum saman. Það slítur mönnum upp og gerir þá dapra og vonlausa ef þeir fá aldrei skilning á slíku hjá yfirboðurum sínum. Ég skora á hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) að hugleiða þetta milli umræðna og hreinsa þarna betur til.