136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[21:26]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Af því að svo mikið hefur verið rætt um alls konar bandorma og hvernig á að berjast við bandorma í dag í tengslum við bandormsfrumvarp ríkisstjórnarinnar varð mér litið á lið í fjáraukalagafrumvarpinu sem heyrir undir forsætisráðuneytið sem ég vildi spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í. Í fjáraukalagafrumvarpi er óskað eftir fjármagni upp á 30 millj. kr. út af efnahagsrannsóknum Þegar maður les textann — þetta er nú í fjáraukalagafrumvarpinu — sést að þetta er eitthvað sem skyndilega kemur upp og hefur greinilega verið í mesta ólestri áður. Þar er talað um, með leyfi forseta:

„Óskað er eftir 30 millj. kr. framlagi til verkefna á sviði efnahagsmála. Unnið er að því að efla rannsóknir og greiningu á íslensku efnahagslífi með það að markmiði að auka þekkingu og skilning á því innan lands sem erlendis.“ Þetta verður í fjáraukalögum.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Var þetta í svona algerum ólestri að menn verða að taka inn í fjáraukalög að fara að reyna að auka þekkingu og skilning forsætisráðherra bæði innan lands og erlendis á efnahagsmálum? (Gripið fram í.) Það er það sem ég er að segja.

Síðan kemur þarna viðbót sem ég ætla líka að spyrja hæstv. ráðherra út í af því að þetta kemur í fjáraukalög sem sýnir vanbúnað forsætisráðherra í þessum efnum. Þar segir:

„Jafnframt er um að ræða tímabundna ráðgjöf í efnahagsmálum til forsætisráðuneytisins, einkum á sviði peninga- og fjármálamarkaðar.“

Ég hélt að það væri stórvarasamt að kalla þetta tímabundið, a.m.k. ef þessi forsætisráðherra situr þarna áfram sýnist mér að þetta ekki geti orðið tímabundið. Menn voru rétt að uppgötva að þetta væri í þessum ólestri. Ég spyr hann út í þetta: Hvaða röksemd liggur að baki því að allt í einu þurfti að fara að uppfræða forsætisráðherra um stjórn efnahags- og peningamála? Er þetta kannski norski hernaðarsérfræðingurinn sem var að kenna hæstv. forsætisráðherra hvernig hann ætti að koma fram í sjónvarpi, hvenær hann ætti að vera í viðbragðsáætlunum og öðru slíku og ráðleggja honum um hvernig hann ætti að koma fram? Hvar kemur sá kostnaður annars fram?

Ég spyr hvort gert sé ráð fyrir að þessi liður um tímabundna ráðgjöf til forsætisráðherra í efnahagsmálum, einkum á sviði peninga- og fjármálamarkaðar, dekki hernaðarráðgjafann sem forsætisráðherra fékk til að hjálpa sér í að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í efnahagsmálum.