136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[21:29]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Eins og kom fram hjá hv. þingmanni var talið nauðsynlegt að kalla til tímabundna ráðgjafa í efnahagsmálum í forsætisráðuneytinu vegna þeirra aðstæðna sem upp komu. Það hefur síðan tengst öðrum atriðum sem talið var skynsamlegt að ýta undir í tengslum við það.

Norski fjölmiðlaráðgjafinn fellur hins vegar ekki undir efnahagsrannsóknir, hann fellur undir lið 1.90, að ég tel, sem er neðarlega á blaðsíðu 76 og efst á blaðsíðu 77. Þar er um að ræða lið þar sem sótt er um fjárveitingu vegna kostnaðar við bæði erlenda og innlenda ráðgjafa og nauðsynlegar aðgerðir ríkisins vegna ástandsins sem við höfum verið að ræða hér á undanförnum dögum. Þar eru m.a. tilgreindir þeir aðilar sem þar að koma og þar er nefnt norska ráðgjafarfyrirtækið Retainer & Company AS sem ég leyfi mér að álykta að sé það fyrirtæki sem tengist norska fjölmiðlaráðgjafanum.