136. löggjafarþing — 60. fundur,  17. des. 2008.

afstaða Sjálfstæðisflokksins til aðildar að ESB.

[13:35]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram á síðasta ári um Evrópumálin. Aðeins einn flokkur lagði fyrir þjóðina þá stefnu að ganga ætti í Evrópusambandið og hefja aðildarviðræður. Sá flokkur var í miklum erfiðleikum alla kosningabaráttuna. Aðeins nokkrum dögum fyrir kosningar var hann með 18% fylgi.

Sjálfstæðisflokkurinn lagði fyrir kjósendur sína að ekki ætti að ganga í Evrópusambandið og ekki ætti að hefja aðildarviðræður. Nú spyr ég, virðulegi forseti: Hvernig getur flokkurinn ætlast til þess að hann geti skipt um stefnu, eins og hann boðar augljóslega og varaformaðurinn notar Noreg til að koma skilaboðum til Íslendinga í þeim efnum, án þess að kjósendur fái neitt um það að segja? Þó að Sjálfstæðisflokkurinn sé stór, mikill og merkilegur flokkur þá er hann ekki íslenska þjóðin. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er ekki þjóðaratkvæðagreiðsla og ég átta mig ekki á því, virðulegi forseti, hvernig hv. þm. Bjarni Benediktsson getur leyft sér það við annan mann að segja við íslensku þjóðina að jafnvel þótt flokkur hans komist að þeirri niðurstöðu að standa við þá stefnu sem hann boðaði fyrir síðustu alþingiskosningar, skuli samt sækja um aðild að Evrópusambandinu, vegna þess að landsfundurinn hafi talað og hann sé þjóðin.

Virðulegur forseti. Þvílíkur hroki í þessum ágæta flokki þegar hann leyfir sér að tala þannig að það sem er ákveðið í Sjálfstæðisflokknum sé í nafni íslensku þjóðarinnar. Ég hygg að hv. þingmenn muni enn hvað varaformaður Sjálfstæðisflokksins sagði fyrir fáeinum dögum í blaðaviðtali. Að hún tryði því og treysti að formaður bankastjórnar Seðlabankans kæmist að þeirri niðurstöðu sem væri best fyrir Sjálfstæðisflokkinn — best fyrir Sjálfstæðisflokkinn. (ÓN: Þetta er bara útúrsnúningur.)