136. löggjafarþing — 60. fundur,  17. des. 2008.

afstaða Sjálfstæðisflokksins til aðildar að ESB.

[13:44]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil taka til máls fyrst og fremst til að vísa á bug ummælum sem hér hafa komið, einkum frá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni sem mér fannst fara afar óvarlega í ræðu sinni og gera mönnum upp skoðanir. Sérstaklega vil ég vísa því á bug sem hann sagði að svo virtist sem Sjálfstæðisflokkurinn undirbyggi stefnubreytingu. Ég held að svo sé ekki. Hins vegar er auðvitað mikil og virk umræða um Evrópumálin innan Sjálfstæðisflokksins og hún hefur verið sett í sérstakan farveg sem lýkur á landsfundi nú í lok janúar og þar munu menn komast að niðurstöðu um þessi mál.

Ég tek hins vegar undir það sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sagði áðan að stefna Sjálfstæðisflokksins er skýr eins og hún er og eins og hann vil ég lýsa stuðningi við þá stefnu og vil að skýrt komi fram að af minni hálfu hafa hinar breyttu aðstæður í efnahagsmálum þjóðarinnar ekki sannfært mig um það að Ísland sé betur komið innan ESB en utan. (Gripið fram í.) Hins vegar geta menn haft ýmsar skoðanir á því hvernig við eigum að nálgast þessi mál, hvort við eigum að fara tvisvar sinnum í þjóðaratkvæðagreiðslu til að kanna hug manna og hvernig við eigum að nálgast viðræður og þess háttar. Ég hef áður sagt að auðvitað verða þessi mál leidd til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu, um það er ekki spurning. Hins vegar get ég sagt fyrir mig — og það kann að vera ákveðinn áherslumunur á milli mín og hv. þm. Bjarna Benediktssonar og hv. þm. Illuga Gunnarssonar — að mér finnst ekki ástæða til að sækja um aðild að klúbbi sem ég hef ekki áhuga á að tilheyra.