136. löggjafarþing — 60. fundur,  17. des. 2008.

afstaða Sjálfstæðisflokksins til aðildar að ESB.

[13:46]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Þetta er áhugaverð umræða sem hér hefur spunnist. Sumir fulltrúar sjálfstæðismanna láta í umræðunni almennt eins og framtíðin í þessu efni hvað Ísland varðar ráðist á landsfundi Sjálfstæðisflokksins, þar sé upphaf og endir alls, en það er að sjálfsögðu mikill misskilningur. Vissulega skiptir pólitísk stefnumörkun einstakra stjórnmálaflokka máli en það er ekki upphaf og endir alls í þessu efni hvað landsfundur Sjálfstæðisflokksins kann að ákveða.

Hins vegar er auðvitað öllum ljóst sem horfa á pólitíkina að það er ákveðin hreyfing þar í gangi. Hún hófst með því að forusta flokksins ákvað að flýta landsfundi til þess að koma til móts við kröfur samstarfsflokksins í ríkisstjórn, það fer ekki fram hjá neinum. Varaformaður flokksins kaus að kynna sínar áherslur í hinu víðlesna vinstri sinnaða og róttæka dagblaði, (Gripið fram í.) Klassekampen , stéttabaráttunni. Væntanlega gerði hún ráð fyrir því að það væri ekki mjög víðlesið hér en það er nú bara þannig að menn taka eftir því sem birtist í Klassekampen og þeim sem kynna áherslur sínar þar. Öllum er því ljóst hvað hér er á ferðinni.

Sagt er af hálfu Samfylkingarinnar að styðja eigi Sjálfstæðisflokkinn í átt til Evrópu. Formaður Samfylkingarinnar gerði meira en að styðja flokkinn þangað, hann setti honum beinlínis stólinn fyrir dyrnar og það er það sem þingmenn eins og Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson mæta með afstöðu sinni.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki rétt hjá hv. þm. Helga Hjörvar að það sé skylda þingmanna að fara í aðildarviðræður. Hér er oft sagt að þjóðin eigi að eiga síðasta orðið. Ég er þeirrar skoðunar að þjóðin eigi að eiga fyrsta orðið, að þjóðkjörnir fulltrúar hafi í raun ekki umboð til þess að taka ákvörðun um að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið (Forseti hringir.) nema spyrja þjóðina fyrst og síðan á nýjan leik þegar einhver afurð kemur út úr slíkum viðræðum.