136. löggjafarþing — 60. fundur,  17. des. 2008.

afstaða Sjálfstæðisflokksins til aðildar að ESB.

[13:59]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa fjörlegu umræðu sem farið hefur fram og er á köflum kostuleg umræða að mínu áliti. Gefið er í skyn að þegar lagt er til að þjóðin fái að ákveða málið sé verið að leggja upp með eitthvað án þess að þjóðin fái neitt um það að segja, eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson orðaði það. Að ég hafi lagt til að málið yrði afgreitt með einhverjum þeim hætti, að þjóðin fengi ekkert um málið að segja eru þvílík öfugmæli, fullkomin öfugmæli, þegar borið er saman við það sem við settum fram í þessari ágætu grein sem fengið hefur góðar viðtökur að því er mér hefur fundist.

Hvort hægt sé að fara í aðildarviðræður án þess að flokkurinn hafi stefnu um að ganga inn í sambandið hef ég þetta að segja: Þeir sem hlustað hafa á stefnu Framsóknarflokksins vita ekkert um hvert hann vill fara í þessu máli. Maður hefur hlýtt á ályktanir héðan og þaðan frá flokksfélögunum um hvort ganga eigi til aðildarviðræðnanna strax eða fara strax í þjóðaratkvæðagreiðslu og ég veit ekki betur en að stefna flokksins í Evrópumálum sé í fullkomnu uppnámi. (Gripið fram í: Nei, nei, nei.)

Þeir sem tala fyrir því að hér verði fyrst farið í þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort fara eigi í umsóknarferlið, eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson gerði áðan, hafa fullt til síns máls. Það er ágætis aðferðafræði til að komast til botns í þessu máli. En hvað ætla menn að gera þegar búið er að samþykkja að fara í það ferli þegar menn halda því fram á sama tíma að reglur klúbbsins séu alveg skýrar? Til hvers á þá að hafa seinni atkvæðagreiðsluna? Var ekki alveg ljóst hver viljinn var í fyrri atkvæðagreiðslunni eða er áhættan svona gríðarlega mikil af því að hefja aðildarviðræður fyrst og bera þær síðan undir þjóðina? Það er þetta sem málið snýst m.a. um.

Ég ætla ekkert endilega að standa í vegi fyrir því (Gripið fram í.) ef ríkari sátt tekst um að fara fyrst í þjóðaratkvæðagreiðslu um að hefja aðildarviðræðurnar. Ég ætla ekki að fyrirgera þeim möguleika að ég styðji við þá leið. Ég hef mælt fyrir því að það verði haldið þannig (Forseti hringir.) á þessu máli að sem víðtækust sátt náist um það hvernig samskiptum okkar við Evrópusambandið verði háttað í framtíðinni. Það er aðalatriðið og er meginatriðið (Forseti hringir.) í þeirri grein sem hér hefur verið til umfjöllunar.