136. löggjafarþing — 60. fundur,  17. des. 2008.

niðurfelling laga um kísilgúrverksmiðju við Mývatn og ráðstöfun eigna Kísilgúrsjóðs.

169. mál
[14:37]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég skrifa undir þetta nefndarálit og mæli með því að þetta frumvarp verði samþykkt. Ég neita því ekki að ég hefði í meðförum nefndarinnar gjarnan viljað sjá drög að þeim samningi sem liggur fyrir milli ráðuneytisins annars vegar og Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga hins vegar um það hvernig eigi að ráðstafa þessum fjármunum. Það eru ekki aðeins þessar tæpu 15 millj. kr. sem um er að ræða heldur eru þarna hlutabréf, m.a. í Baðfélaginu í Mývatnssveit og fleiri félögum sem eru að bókfærðu virði eins og hv. formaður iðnaðarnefndar sagði áðan 7,4 millj. kr. Ég hefði gjarnan viljað sjá drög að slíkum samningi.

Það kom fram í meðförum nefndarinnar að ekki er hægt að afsala eignum ríkisins, hvort heldur eru bankabækur eða hlutabréf, til Atvinnuþróunarfélagsins en með samningi er hægt og heimilt að fela Atvinnuþróunarfélaginu að eyða þessum peningum í skynsamleg verkefni sem ég efast ekki um að nóg sé af nú þegar verið er að skera allt niður sem hugsast getur í þessu landi.