136. löggjafarþing — 60. fundur,  17. des. 2008.

frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins o.fl.

179. mál
[15:26]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Sem kunnugt er byggir samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði á frjálsum eða lítt heftum flutningi á fjármagni, vörum og vinnuafli. Á þessu eru þó ýmsar hömlur og eftir að Evrópusambandið var stækkað austur á bóginn til hins fátækari hluta álfunnar þar sem atvinnuleysi er mikið voru sett inn ákvæði eða samþykktir þess efnis að aðildarríki EES gætu frestað því að opna fyrir frjálst flæði launafólks. Við fjöllum hér um einn slíkan samning sem snýr að Búlgörum og Rúmenum og spurningin sem við stöndum frammi fyrir er sú: Eigum við að framlengja þær hömlur sem settar voru á flutninga vinnuafls frá þessum löndum og mundu að óbreyttu renna út í ársbyrjun 2009, eigum við að framlengja þær til ársins 2012?

Um þetta eru nokkuð skiptar skoðanir, það eru skiptar skoðanir um þetta í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Þar eru þær raddir til sem vilja óheft flæði vinnuaflsins, að ekki eigi að mismuna ríkjum eða þegnum innan hins Evrópska efnahagssvæðis. Þar eru líka til þau sjónarmið að heimurinn eigi einfaldlega að vera allur opinn fyrir frjálsu flæði vinnuafls. Sannast sagna hefur mér fundist þessi aðgreining á milli Evrópusambandsríkjanna annars vegar eða þeirra sem aðild eiga að hinu Evrópska efnahagssvæði og annarra ríkja alltaf verið fremur ógeðfelld. Verst þótti mér þegar við samþykktum á Alþingi — ég átti reyndar ekki hlut að þeirri samþykkt og ekki við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði — ákvæði þess efnis að mismuna fólki utan EES á grundvelli menntunar. Það var mjög ógeðfelld lagasetning. Að ef menn hafa háskólapróf upp á vasann og eru frá Indlandi eða öðrum ríkjum heims utan EES og vilja koma hingað verður leitað í fórum þeirra hvort þeir hafi háskólastimpil upp á vasann eða þyki það merkilegur pappír að rétt sé að hleypa þeim inn í landið. Það þótti mér vera slæmt.

Varðandi þessa framlengingu hins vegar og í ljósi allra aðstæðna ákvað ég að setja nafn mitt undir álit félagsmálanefndar og styðja þessa breytingu. Ég legg áherslu á að þessi framlenging á hömlunum verður ekki til þess að koma í veg fyrir að fólk frá Rúmeníu eða Búlgaríu komi hingað til starfa. Það eru nýleg dæmi þess efnis. Ef gerðir hafa verið samningar sem Vinnumálastofnun hefur boðað og tryggt er að fólk er að sigla hingað inn í örugga höfn þá fær það leyfi til að koma hingað. Mér þykja þetta ekki slæm býti, alls ekki, og það ætti náttúrlega helst að gilda um alla sem hingað koma að því fylgi öryggi, ég tala ekki um ef um er að ræða fátækt fólk sem hingað er komið í atvinnuleit. Vinnumálastofnun mælir með því að við förum þessa leið, Alþýðusamband Íslands mælir með því að við förum þessa leið og flestir aðilar sem leitað hefur verið til. Mér finnst rök þeirra vera sannfærandi og styð frumvarpið.