136. löggjafarþing — 60. fundur,  17. des. 2008.

virðisaukaskattur, vörugjald o.fl.

247. mál
[16:05]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér er merkismál á ferðinni sem varðar undanþágur. Það hefur þurft að framlengja þá undanþágu sem hefur verið í gildi og varðar vörugjöld og virðisaukaskatt af tilteknum vistvænum ökutækjum. Þetta er mál sem ég þekki frá minni tíð í ríkisstjórn og iðnaðarráðuneytinu, þetta er mál sem við börðumst mikið fyrir, framsóknarmenn, að ná fram og náðum því fram að það varð að veruleika að taka tillit til þess að hér er um mjög vistvæna lausn að ræða í sambandi við samgöngur.

Ég segi eins og síðasti ræðumaður, hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, að auðvitað hefði ég viljað sjá nú þegar að komin væri fram einhver heildarstefna í þessum málaflokki. Miðað við stór orð sem voru látin falla af hálfu stjórnarflokkanna við myndun þessarar ríkisstjórnar átti heldur betur að taka á honum stóra sínum, m.a. í þessum málum. Það hefur hins vegar lítið orðið um framkvæmdir en nú boðar hæstv. fjármálaráðherra að það sé að vænta frumvarps sem sé þá til að móta stefnu til framtíðar í þessum málaflokki. Við Íslendingar verðum að setja okkur einhver markmið í því hversu hratt við ætlum að skipta flotanum yfir í vistvæn ökutæki. Við erum í dag með mikla sérstöðu sem varðar orkumál okkar eins og allir vita. Um 70% af heildarorkunotkun er vistvæn orka þannig að það má segja að fyrst og fremst samgöngurnar geti komið okkur lengra á þeim vegi sem við viljum flestöll ganga, held ég.

Ég læt mér detta í hug að það væri hægt að setja sér það markmið að t.d. árið 2020 væri helmingur af hefðbundnum ökutækjum orðinn vistvænn. Einhver markmið verðum við að setja okkur til að ná árangri. Við tókum á sínum tíma mikinn þátt í alþjóðlegu samstarfi sem varðar nýtingu vetnis og það varð vissulega til þess að bæta ímynd Íslands, að Ísland skyldi vera í forustu í raun hvað varðar þennan þátt mála. Nú sýnist mér að áherslan sé ekki síður á rafmagnsbíla og það er ekkert nema gott um það að segja. Aðalatriðið er að við náum að skipta úr jarðefnaeldsneytisnotkun og yfir í vistvæna neyslu á þessu sviði.

Hæstv. forseti. Að sjálfsögðu styðjum við framsóknarmenn þetta mál. Ef það hefði ekki komið fram hefði orðið sú breyting um áramót að þessar undanþágur hefðu fallið úr gildi sem við að sjálfsögðu viljum alls ekki. Ég vona sannarlega að það sé samstaða um það í ríkisstjórninni að flytja það frumvarp sem hæstv. fjármálaráðherra boðaði og að við megum sjá það á vorþinginu í þingsalnum.