136. löggjafarþing — 60. fundur,  17. des. 2008.

almannatryggingar.

235. mál
[16:12]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tala fyrir nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum.

Hér er um að ræða framlengingu á ákvæði sem átti að gilda til áramóta. Nefndin fjallaði um málið og umsögn barst frá Viðskiptaráði Íslands en ekki voru kallaðir til aðilar, einfaldlega vegna þess að við erum nýbúin að fjalla um málið og eins og ég segi er einungis um framlengingu að ræða.

Með lögum nr. 57/2008 sem samþykkt voru á Alþingi þann 29. maí sl. var lögum um almannatryggingar breytt þannig að frítekjumark örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna var hækkað úr rúmlega 27 þús. kr. í 100 þús. kr. á mánuði. Markmið breytingarinnar var að hvetja einstaklinga til vinnu og gera örorkulífeyrisþegum kleift að afla sér aukinna tekna af atvinnu án þess að til kæmi skerðing á bótum frá Tryggingastofnun ríkisins. Breytingin var tímabundin og henni ætlað að gilda út árið 2008. Unnið hefur verið að tillögum um endurskoðað örorkumat sem byggist m.a. á markmiðum um starfshæfnismat og eflingu starfsendurhæfingar með áherslu á að skoða frekar getu fólks til starfa en vangetu. Þar sem vinnu við þá tillögu er ekki lokið er lögð til framlenging á ákvæðinu til eins árs þannig að örorkulífeyrisþegar haldi þessum rétti sínum.

Nefndin lagði á sínum tíma til að frumvarp það sem varð að lögum nr. 57/2008 yrði samþykkt óbreytt og taldi að hækkun frítekjumarksins mundi leiða til aukinnar atvinnuþátttöku örorkulífeyrisþega og hafa þannig í för með sér hærri tekjur og meiri lífsgæði þeim til handa. Nefndin áréttar í nefndaráliti sínu þessi sjónarmið sín ásamt því sem hún leggur áherslu á að svigrúm verði veitt til vinnu að endurskoðun örorkumatsins. Ljúki þeirri endurskoðun innan þessa árs sem framlengingin nær til verður gildistími laganna endurskoðaður.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Kristinn H. Gunnarsson, Árni Johnsen og Jón Gunnarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Undir nefndarálitið rita undirritaður, Guðbjartur Hannesson formaður, Ármann Kr. Ólafsson, Helga Sigrún Harðardóttir, Ögmundur Jónasson, Kjartan Ólafsson og Ásta R. Jóhannesdóttir.