136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

Tryggingastofnun ríkisins.

[13:04]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég hef áhuga á því að heyra sjónarmið hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra hvað varðar stöðu Tryggingastofnunar ríkisins. Sú stofnun var, eins og kunnugt er, flutt á verksvið hæstv. ráðherra með breytingum á fyrirkomulagi innan Stjórnarráðsins við upphaf þessa kjörtímabils og ber nú hæstv. ráðherra ábyrgð á meginstarfsemi hennar. Síðan hefur ríkisstjórnin ákveðið að skipta verkefnum hennar upp og færa sjúkratryggingahlutann til nýrrar stofnunar um útboð og einkarekstur í heilbrigðiskerfinu en fréttir berast af því að þessi uppskipting gangi vægast sagt illa auk þess sem hún virðist ætla að reynast ákaflega kostnaðarsöm.

Þannig er í frumvarpi til fjáraukalaga umtalsverð aukafjárveiting lögð til af hálfu hæstv. ríkisstjórnar til að kosta ráðgjöf og alls konar vinnu sem að sögn hefur verið unnin á árinu auk þess sem upplýst er að árlegur kostnaður af þessum uppskiptum og þessum tvöfalda rekstri verði um 250 millj. kr. og jafnvel meira. Þar við bætist svo að miklar illdeilur og ágreiningur eru um þetta mál innan kerfisins og milli ráðuneyta og stofnana. Því vil ég spyrja hæstv. félagsmálaráðherra: Hver er staða þessa máls núna? Hver er afstaða hæstv. félagsmálaráðherra til þessa? Vill ekki hæstv. félagsmálaráðherra taka á sig rögg og beita sér fyrir því innan ríkisstjórnarinnar að hætt verði við þessa vitleysu og þeir peningar sem þannig sparast verði þá frekar notaðir í að draga úr sársaukafullum niðurskurði í velferðarkerfinu?

Ég hef trú á því að hæstv. félagsmálaráðherra teldi sig vel geta notað 250 millj. kr. í viðbót einhvers staðar eða eigum við að semja um að þeir peningar verði notaðir til þess að ekki þurfi að selja inn á sjúkrahúsin, hæstv. félagsmálaráðherra? Ég bið um svör.