136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

málefni háskólanema.

[13:16]
Horfa

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Hv. þingmaður kom m.a. inn á stöðu LÍN. Það undirstrikar í rauninni hve staða LÍN er góð og hversu skynsamlega við höfum haldið á málum varðandi málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna á síðustu missirum og árum að við getum — og það er reyndar bara einskiptisaðgerð — að hluta til gengið á eigið fé sjóðsins. Undirstöður LÍN eru sterkar nú við aðstæður sem eru ólíkar því sem við höfum áður upplifað og koma m.a. til móts við þau sjónarmið sem hafa verið sett fram varðandi samtímalánin. Þetta eru allt saman hlutir sem við munum að sjálfsögðu fara í til þess að koma til móts við erfiðar aðstæður námsmanna.

Ég vil líka undirstrika það sem ég sagði um að það væri arfavitlaust að fara þessar leiðir í eðlilegu árferði. Ég efast ekki um að hæstv. félagsmálaráðherra og allir aðrir fagráðherrar hér vilji hlífa sínum málaflokki. Allir telja sín mál, hvort sem það eru heilbrigðis-, félags- eða menntamál, vera þau mál sem skipta okkur máli. En kreppan er ekki bara einhver orð á blaði. Þetta eru hlutir sem allir verða að axla og (Forseti hringir.) allir verða að reyna að hagræða og sýna útsjónarsemi til þess að koma til móts við mismunandi þarfir.