136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

reglur um starfsemi ríkisbankanna.

[13:20]
Horfa

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er mikið rétt að gríðarlegt vantraust er í gangi og ótrúlegasti orðrómur veður uppi um starfsemi bankanna. Margt af því má bæta allverulega og þar er algjört grundvallaratriði að bankarnir setji sér þær verklagsreglur vegna útlánamála sem ríkisstjórnin lagði fyrir þá á sínum tíma. Það kom fram á sérstökum fundi mínum og fjármálaráðherra með formönnum bankastjórna bankanna fyrir nokkru síðan.

Bankarnir hafa brugðist vel við þessu og frá þeim tíma hafa þeir verið með slíkar reglur í vinnslu. Við setjum leikreglurnar. Við þurfum að tryggja gegnsætt og opið ferli þegar kemur að útlánamálum bankanna. Þar bíður bankanna gríðarlega mikið verkefni sem er að nálgast skuldir og skuldara og þar skiptir öllu máli að tvennt sé í heiðri haft, annars vegar jafnræði og hins vegar gagnsæi í öllum slíkum ferlum. (Gripið fram í.) Einungis slíkar verklagsreglur geta orðið grundvöllur að endurreisn og trausti.

Mér hefur verið tilkynnt að Glitnir muni birta sínar verklagsreglur í þessari viku. Landsbankinn er að ljúka gerð sinna reglna og ég efast ekki um að Kaupþing sé að því líka. Þetta er algjört grundvallaratriði til að bankarnir geti sinnt sínu lykilhlutverki í atvinnuuppbyggingu þjóðarinnar og nálgun skuldamála bæði einstaklinga og fyrirtækja. Þar er enginn réttari en annar og þar verður að gæta ýtrustu varúðar.

Þá er mjög mikilvægt að skiptastjórum, sem í mörgum tilfellum hafa með að gera sölu eigna sem hafa farið til þrotameðferðar, verði settar reglur um tilkynningaskyldu á sölu allra eigna yfir ákveðinni upphæð. Þetta er líka mjög mikilvægt mál og við þurfum að setja sérstakar reglur um það að auki.