136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

endurskipulagning Fjármálaeftirlitsins.

[13:31]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég hef hug á því að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra hvað líði hugmyndum um endurskipulagningu Fjármálaeftirlitsins og hver afstaða ráðherrans er til þess að flytja Fjármálaeftirlitið inn í Seðlabankann og hvort hann telji ekki rétt að skipta nú út bæði stjórn og æðstu stjórnendum Fjármálaeftirlitsins.

Ég minni á að Fjármálaeftirlitinu voru falin gríðarlega mikil og mikilvæg verkefni með neyðarlögunum og það er greinilegt að margar aðgerðir eftirlitsins sæta mikilli gagnrýni og þær eru alls ekki yfir vafa hafnar, því miður.

Ég vek athygli á því sem kemur reyndar fram í nefndaráliti allsherjarnefndar vegna sérstaks saksóknara að skilanefndirnar sem Fjármálaeftirlitið skipar starfa sem sagt undir forræði Fjármálaeftirlitsins og eru að reka bankana fyrir og á vegum Fjármálaeftirlitsins en því er síðan ætlað að hafa eftirlit með starfsemi þessara sömu skilanefnda og þar með með sjálfum sér.

Í öðru lagi vek ég athygli á því að það er ótrúlegt en staðfest að í skilanefndir hafa verið valdir til forustu einstaklingar sem eru beintengdir við stóra hagsmunaaðila innan bankans og í hópi eigenda bankanna. Ég vísa til fréttar í Fréttablaðinu í dag þar sem fram kemur að 13 af 15 núverandi skilanefndamönnum eru beintengdir inn í sömu fyrirtæki eða til eigenda bankanna og inn í endurskoðunarfyrirtæki.

Það kom fram yfirlýsing frá Fjármálaeftirlitinu vegna þessa þann 15. þessa mánaðar og það má segja að þeir séu gamansamir þar. Þar kemur fram, herra forseti, að Fjármálaeftirlitið gætir hagsmuna okkar (Forseti hringir.) með því að spyrja nefndarmenn í skilanefndunum sérstaklega hvort þeir uppfylli kröfur um almennt hæfi samkvæmt lögum um (Forseti hringir.) fjármálafyrirtæki. Það er ekki kannað, heldur eru nefndarmenn spurðir að því sérstaklega. Þetta tel ég mjög ámælisvert og ég spyr um afstöðu ráðherrans til þessa.