136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

vandi smærri fjármálafyrirtækja.

[13:44]
Horfa

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er svo sannarlega brýnt að taka þessi mál til umræðu hér þó að það skarist töluvert, kannski með beinum hætti, við það sem hér er um fjallað af því að málefni Seðlabanka og endurhverfu bréfanna heyra undir forsætisráðherra og hann mun sjálfsagt gera grein fyrir því hér við annað tækifæri betur.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á málinu sem er vandi smærri fjármálafyrirtækja í kjölfar falls stærri bankanna og hefur það auðvitað heilmikil áhrif á stöðu þeirra, stórfelld verðlækkun á verði hlutabréfa og skuldabréfa hefur að sjálfsögðu skert eiginfjárstöðu smærri fjármálafyrirtækja verulega. Þar með eru talin skuldabréfin sem þingmaðurinn gat um og eru útgefin af gömlu viðskiptabönkunum sem ýmsar fjármálastofnanir höfðu lagt að veði í endurhverfum lánaviðskiptum í Seðlabanka Íslands og nemur þessi upphæð, að mér skilst, um 300 milljörðum kr.

Ríkisstjórnin einsetti sér strax í byrjun októbermánaðar að finna lausn á stöðu smærri fjármálafyrirtækja, koma í veg fyrir að þau féllu í kjölfarið væri þess nokkur einasti kostur. Það mun að sjálfsögðu mikið ráðast um afdrif sparisjóðabankans Icebank, af því að þar liggja t.d. margir þræðir úr sparisjóðunum. Hvað varðar spurningarnar beint um endurhverfu bréfin og stöðu mála hvað þau varðar, að höggva á hnútinn, niðurstaðan, þá er þetta mál til sérstakrar skoðunar hjá Seðlabanka Íslands. Það er hans að koma með tillögu að lausn á málinu, hann verður að leysa málið, en það er einnig til umræðu og meðferðar í sérstökum starfshópi um smærri fjármálafyrirtæki sem t.d. birtir reglurnar um aðkomu ríkisins að sparisjóðum sem verða birtar í dag og ríkisstjórn samþykkt fyrir nokkrum dögum og ég ætla rétt að tæpa hér á líka. Þess vegna hafa núna verið settar starfsreglur um framlag ríkisins til sparisjóðanna sem byggjast á vinnu starfshóps um málefni smærri fjármálafyrirtækja þar sem sitji fulltrúar viðskipta- og fjármálaráðuneytis, Seðlabanka og forsætisráðuneytis. Þessar reglur verða birtar opinberlega í dag og þær kveða á um hámarksframlag og viðmiðunarefnahagsreikning, raunar endurskipulagningaráætlun sem m.a. miðar að því að CAD-hlutfall verður ekki lægra en 12% sem er sett að skilyrði fyrir framlagi ríkisins og aðkomu að sparisjóðunum.

Ljóst er að í nokkrum tilfellum mun 20% framlag eitt og sér ekki duga, en reglurnar gera ráð fyrir því að framlag ríkissjóðs auk framlags frá öðrum skuli ná 12% markinu. Í þeim tilfellum sem sameiningaráform eru hluti af endurskipulagningu skulu þau skýrð.

Nú er t.d. í fullum gangi sameiningarviðræður milli Sparisjóðs Reykjavíkur, Byrs og Sparisjóðs Keflavíkur og vonir standa til að þar verði til nýr og öflugur sparisjóður sem standi mikið traustari fótum á erfiðum tímum en þessir minni. Mér er kunnugt um að sjálfstæðir sparisjóðir á landsbyggðinni séu áhugasamir um nánara samstarf og gætu hugsanlega farið svipaða leið ef forsvarsmenn þeirra kjósa svo.

Það er gríðarlega mikilvægt atriði í þessu öllu saman að standa vörð um sparisjóðina, tryggja tilvist þeirra áfram í okkar fjármálakerfi. Því miður fór af stað ferli fyrir mörgum árum sem leiddi til nokkurs konar einkavæðingar sjóðanna og var mjög óheppilegt og breytti þessum félagslegu fjármálafyrirtækjum í hefðbundna viðskiptabanka sem misstu þar með sérstöðuna og kannski sjónar á hlutverki sínu. Það er miður, það er erfitt að snúa þessu við, vissulega, en vonandi tekst okkur að varðveita stöðu fjármálafyrirtækjanna hinna minni, hvort sem það eru fjárfestingarbankar eða sparisjóðir, og það er mikilvægt eins og spurt er um í þriðju spurningu að þeir taki þátt í endurreisninni og verði gert kleift að lifa sé þess nokkur kostur. Í sumum tilfellum ríður það á ákvörðun Seðlabanka og fjármálaráðuneyti að lokum um hvernig farið verði með hin endurhverfu skuldabréf, alveg gríðarlegir fjármunir sem liggja í þessu máli. Icebank, Sparisjóðabankinn, einn og sér er þar með 150 milljarða, helminginn af þessum endurhverfu bréfum, í skuld við Seðlabankann. Hann hefur fengið frest til loka janúar til að ljúka sínum málum. Meðan er unnið að lausn hinna smærri fjármálafyrirtækja sem eru þar með miklu lægri upphæðir, en upphæðir samt sem þau hugsanlega sækjast eftir að breyta í lán, ekki er verið að tala um aðrar ívilnanir en þær.

Jú, ég held að það sé mjög mikilvægt að þessi mál fái farsælan endi eins og einhugur er um meðal ríkisstjórnar og þeirra stofnana sem þar að koma. Þess vegna hefur verið unnið af miklu afli í þessu máli alveg frá því að stóru bankarnir féllu með það að markmiði að koma í veg fyrir að hinir smærri fari á eftir og helst þannig að þeir komi sterkari út, með hagræðingu, með sameiningu og öðrum slíkum atriðum sem eru í gangi núna. Ég vona að það verði jákvæð tíðindi áfram á næstu dögum. Þau eru jákvæð í dag þar sem reglurnar, sem settur fjármálaráðherra kynnti ríkisstjórn á föstudaginn, um aðkomu ríkisins að rekstri sparisjóðanna, verða kynntar.