136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

vandi smærri fjármálafyrirtækja.

[13:54]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni, fyrir þá umræðu sem hér fer fram. Ég tel það skipta mestu máli varðandi þá hluti sem hér er um að ræða að hvað varðar meðferð og uppgjör á smærri fjármálafyrirtækjum sé í fyrsta lagi gætt jafnræðis og sanngirni. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að það skiptir gríðarlegu máli fyrir fjármálakerfi okkar að hægt sé að varðveita þær eignir sem mögulegt er að varðveita. Með sama hætti verðum við líka að skoða það að svigrúm til aðstoðar og hjálpar af hálfu hins opinbera er vægast sagt mjög takmarkað því að þar skortir verulega á og miðað við það fjárlagafrumvarp sem var lagt fram og samþykkt til 3. umr. um daginn þá liggur fyrir að ekki eru til fjármunir til að veita eða fara í einhvern aðstoðarleiðangur hvorki við smærri fjármálafyrirtæki né aðra.

Það er búið að veita svigrúm til loka janúar eins og kom fram af Seðlabanka Íslands og er það vel. Það er því spurning um að það svigrúm verði nýtt og smærri fjármálafyrirtæki og þá helst sparisjóðirnir móti stefnu sem geti verið skynsamleg og varðað leið áfram til að þau geti sýnt fram á að þau muni standa sig í því fjármálakerfi sem við búum við. Ég satt að segja vona það. Ég tel að það hafi að mörgu leyti verið gerð mistök þegar bankahrunið varð á Íslandi, að það hefði verið hægt að fara öðruvísi að, með sama hætti og ég hvet til að gert verði núna, þ.e. að reynt verði að hámarka verðmæti og takmarka veðköll svo lengi sem unnt er.