136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

vandi smærri fjármálafyrirtækja.

[13:56]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum stöðu smærri fjármálafyrirtækja. Það er löngu tímabært að taka umræðuna um stöðu þeirra og þann skaða sem ríkisstjórnin er að valda þeim. Í rúma tvo mánuði hefur ríkisstjórnin með hæstv. viðskiptaráðherra í broddi fylkingar ýtt málinu á undan sér. Menn hafa ekki einu sinni viljað ræða málið á Alþingi fyrr en nú. Má þar nefna að ekkert formlegt svar hefur enn borist við fyrirspurn hv. þm. Jóns Bjarnasonar til viðskiptaráðherra um aðgerðir til stuðnings sparisjóðum frá 27. nóvember sl.

Fáar stofnanir njóta jafnmikils velvilja á Íslandi og sparisjóðirnir. Sparisjóðirnir mælast aftur og aftur sem vinsælustu fyrirtæki landsins og má rekja það til þeirra hugsjóna sem lágu að baki stofnun sjóðanna. Hugmyndafræðin að stofnun sparisjóðanna barst hingað eftir krókaleiðum frá þýsku samvinnuhreyfingunni. Markmiðið með stofnun þeirra var ekki að græða á íbúum samfélagsins heldur að þjóna þeim. En hvað gerðist? Græðgisvæðingin sem tröllreið íslensku samfélagi þar sem allir virtust hugsa fyrst og fremst um skjótan hagnað náði líka til þessara lykilstofnana í íslensku samfélagi. Alveg eins og menn misstu trúna á íslensku samvinnufélögunum á miklum bólgutímum misstu menn tiltrúna á samvinnuhugsjónina á bak við sparisjóðina. Hugsjónin um að samfélagsleg ábyrgð og umhyggja á líka að skipta máli í rekstri fyrirtækja, hugsjónin um að það sé framfaramál fyrir viðkomandi samfélög að sparisjóðirnir dafni og að á móti skili sparisjóðirnir umtalsverðum hluta af hagnaði sínum aftur til samfélagsins í formi alls kyns styrkja og í þátttöku í menningar- og líknarmálum.

Í grein í Fréttablaðinu þann 14. desember sl. skrifar Frímann Hákonarson, með leyfi forseta:

„Það merkilega er að þeir sparisjóðir sem gengið hafa lengst í hlutafélagavæðingunni og tútnað hafa mest út á undanförnum árum standa verst að vígi í dag. Þeir sparisjóðir sem héldu í gömlu hefðirnar eru aftur á móti í ágætismálum“

Sá hagfræðilegi rétttrúnaður sem vaðið hefur uppi á síðustu árum um hagkvæmni stærðarinnar er því algert bull og maður hefur því svolitlar áhyggjur (Forseti hringir.) af því sem hæstv. viðskiptaráðherra talar um þegar hann er að leggja til að sparisjóðirnir eigi að halda áfram að tútna út.