136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

vandi smærri fjármálafyrirtækja.

[13:58]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er góð umræða og málefnið er brýnt. Þegar kerfishrun verður í hinum stóru bönkum á íslenskt efnahagslíf allt undir því að hinar minni fjármálastofnanir geti starfað með skilvirkum hætti og það er sérstakt fagnaðarefni að þær lifðu þetta hrun af og það greiddi án efa fyrir því að áhrifin í samfélaginu urðu ekki verri en þau þó urðu. Það er mjög mikilvægt að þessar stofnanir fái að vaxa og dafna til lengri tíma litið. Í því efni er augljós hindrun í vegi sem er hvernig gengið verður frá endurhverfum viðskiptum sem þessar stofnanir áttu fyrir hönd gömlu bankanna við Seðlabanka Íslands. Seðlabankinn verður að taka af skarið í því efni og ég tel að sú óvissa sem ríkir í þessu máli sé mjög skaðleg. Því verður ekki trúað að óreyndu að það verði helsta framlag Seðlabankans á þessum tíma til aðgerða til að endurheimta stöðugleika í fjármálakerfinu að setja þessar smærri fjármálastofnanir í þrot. Ef svo væri þá hlyti maður að spyrja hvers konar skepna Seðlabankinn sé. Það er þá undarleg skepna því að við höfum heyrt að hann sé of lítill og telji sig of lítinn til að lána stórum bönkum. En ef hann er líka óhæfur til að lána litlum bönkum og greiða fyrir því að þeir fái starfað hlýtur maður að spyrja sig til hvers hann er.

Auðvitað á hlutverk Seðlabankans við svona aðstæður að vera að leggja lykkju á leið sína til að tryggja eðlilega starfsemi fjármálastofnana, tryggja að þær geti starfað og rækt skyldur sínar við almenning og það er mjög mikilvægt að Seðlabankinn eyði þeirri óvissu sem er í málinu sem allra fyrst.