136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

vandi smærri fjármálafyrirtækja.

[14:00]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er hverju orði sannara sem hér hefur verið nefnt að það var mikil ógæfa þegar sparisjóðirnir urðu græðgisvæðingunni að bráð og hefur leitt til stórtjóns víða fyrir utan hina siðferðilegu hlið á því máli að þeir sem áttu að vera og eiga að vera gæslumenn sjálfseignarstofnananna í héraði, stofnfjáreigendurnir, fundu skyndilega út úr því með hjálp stjórnvalda, ekki síst Framsóknarflokksins sem fór þá með bankamál, að hægt væri að græða á þessu, að græða á valdaaðstöðu sinni í sjálfseignarstofnun, eitt það ógeðfelldasta sem mér finnst hafa gerst hér á undanförnum árum og er þá langt til jafnað.

Fall stóru bankanna var auðvitað mikið reiðarslag með þeirri keðjuverkun og ósköpum sem því hafa tengst. Þeim mun undarlegra er það auðvitað, frú forseti, að ríkisstjórnin skuli hafa þvælt því á undan sér í tvo og hálfan mánuð að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja stöðu þeirra stofnana sem þó halda velli, sparisjóðanna, minni fjárfestingarbanka og annarra fjármálafyrirtækja. Veðkall Seðlabankans, sem menn skamma hér mikið, bæði ráðherra og hv. þm. Samfylkingarinnar Árni Páll Árnason, kom í kjölfar ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins um hvernig farið skyldi með bréfin, þannig að það skyldi nú ekki vera að þetta standi nær hæstv. viðskiptaráðherra sjálfum að hluta til en hann vill kannski vera láta í þokukenndum svörum sínum.

Síðan hefur hvorki gengið né rekið og þessar stofnanir lifa viku frá viku á framlengdum frestum, fá engin svör og eru óstarfhæfar því að þær geta hvorki tekið menn í viðskipti né veitt þjónustu meðan þær lifa viku frá viku á framlengdum frestum. Þetta er algerlega óverjandi ástand og óskiljanlegt að menn skuli þó ekki a.m.k. reyna að slá skjaldborg um þann hluta fjármálakerfisins sem ekki hrundi með stóru bönkunum. Ríkisvaldið á einfaldlega að leysa þetta mál. Það þýðir ekkert að vísa hér hver á annan, Seðlabankann eða (Forseti hringir.) fjármálaráðherra eða hvað það nú er. Hæstv. viðskiptaráðherra fer með bankamál og á því sem fagráðherra að hafa forustu um að leysa þetta og fyrir jól.