136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

vandi smærri fjármálafyrirtækja.

[14:03]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem komið hefur fram í umræðunni að það mikla efnahagsáfall og bankahrun sem átti sér stað hér í haust hefur auðvitað haft áhrif á hin smærri fjármálafyrirtæki hvort sem um er að ræða smærri fjárfestingarbanka, sparisjóði eða önnur slík fyrirtæki og þar hafa komið upp ákveðin vandamál sem unnið er í að leysa eins og hæstv. viðskiptaráðherra gerði grein fyrir áðan.

Það eru nokkur atriði sem ég vildi nefna. Í fyrsta lagi vil ég taka undir það sem hér hefur komið fram um mikilvægi þessara fyrirtækja á fjármálamarkaðnum. Þau gegna mikilvægu hlutverki, bæði staðbundið en einnig með því að veita sérhæfða þjónustu á ýmsum sviðum og skipta líka miklu máli eins og nefnt hefur verið til þess að tryggja virka og öfluga samkeppni á fjármálamarkaði. Þess vegna er mikilvægt við enduruppbyggingu fjármálakerfisins að þess sé gætt að hagur hinna smærri fjármálafyrirtækja verði ekki fyrir borð borinn og að þau hafi svigrúm og tækifæri til þess að ná sér á strik.

Á hitt ber að líta að jafnvel fyrir bankakreppuna var hagur og aðstaða þessara fyrirtækja afar misjafn. Sum þeirra voru afar vel rekin, önnur kannski síður. Sum voru veik fyrir, önnur ekki. Það er ekki hægt að reikna með að fjármálakerfið verði hér óbreytt eða að hægt sé að frysta ástandið með einhverjum hætti. Það er eðlilegt að gera ráð fyrir því að einhver uppstokkun verði á þessum markaði, það er eðlilegt að gera ráð fyrir því að það verði um einhverjar sameiningar að ræða og það er eðlilegt að þessi fyrirtæki fái svigrúm til þess að (Forseti hringir.) laga sig að breyttum aðstæðum eins og önnur fyrirtæki í atvinnulífinu.