136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

vandi smærri fjármálafyrirtækja.

[14:07]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram, hún hefur verið málefnaleg og góð. Hún var í mínum huga mjög mikilvæg og brýn vegna þess að það er eins og hv. þm. Árni Páll Árnason sagði áðan, sú óvissa sem þessi fjármálafyrirtæki hafa búið við er óviðunandi.

Ég vil þakka hæstv. viðskiptaráðherra svörin og það að ríkisstjórnin ætlar að koma með lausnir sem verða kynntar seinna í dag, það er afar jákvætt. En um leið verð ég að segja að ég átti von á skýrari svörum varðandi önnur fjármálafyrirtæki sem þurfa enn þá að búa við þessa óvissu. Ég verð bara að segja það hreint út að ég er orðinn hundleiður á því að ráðherrar komi hér upp og vísi í aðra ráðherra. Það er útilokað að taka þessa umræðu á tvo til þrjá ráðherra sem hefði kannski verið hægt að gera hér í dag, ríkisstjórnin verður einfaldlega að tala saman. Auðvitað höfum við í stjórnarandstöðunni sagt að hér séu tvær ríkisstjórnir, en það á samt ekki að vera bara staðreynd að það sé ekki hægt að svara spurningum sem er beint að ráðherra og snúa að einhverju leyti að öðrum ráðherra. Ég bið því hæstv. viðskiptaráðherra að svara spurningum um veðköllin, sem eru enn þá í óvissu: Verða þau leyst á næstunni?

Hv. þm. Guðfinna Bjarnadóttir sagði að mikilvægt væri að leysa þetta mál skynsamlega. Það er einmitt málið. Það er enginn að tala um að hér verði einhver mikil útgjöld af hálfu ríkisins. Það er bara verið að tala um að þeim verði gert kleift (Forseti hringir.) með frestunum eða á einhvern hátt að komast yfir þessi veðköll þangað til við fáum úr því skorið hvað kemur út úr skilanefndum gömlu bankanna.