136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

meðferð sakamála.

217. mál
[14:49]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir áhugaverða ræðu um þetta mál. Sérstaklega fannst mér áhugaverður sá kafli í ræðu hans þar sem hann fjallaði um Icesave-málið vegna þess að það er rétt sem kemur fram í máli hans að frumvarpið sem hér er til umræðu er ekki síst flutt vegna þess máls sérstaklega. Mig langar þess vegna að forvitnast um það, af því að það kemur ekki fram í nefndarálitinu sjálfu og kom ekki fram í framsöguræðu formanns allsherjarnefndar, að hvað miklu leyti sá þáttur var ræddur á vettvangi allsherjarnefndar, að hve miklu leyti var umræða um Icesave-málið í tengslum við þetta mál á vettvangi nefndarinnar. Mér finnst forvitnilegt að fá fram upplýsingar um það frá hv. þingmanni sem hér hefur gert grein fyrir afstöðu sinni í því efni, ef hann vildi vinsamlegast gefa okkur aðeins innsýn í hvað nefndin fjallaði sérstaklega um þetta mál.