136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

verslun með áfengi og tóbak.

209. mál
[15:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak, nr. 63/1969, með síðari breytingum. Það er að finna á þskj. 369 og er frá hv. efnahags- og skattanefnd.

Á þingskjalinu kemur fram hvaða gestir komu á fund nefndarinnar og eins umsagnir og svo er lýsing á frumvarpinu.

Á fundum nefndarinnar var rætt hvort frumvarpið hefði í för með sér að álagning á áfengi hækkaði eða lækkaði. Fulltrúar fjármálaráðuneytis og ÁTVR bentu á að verð á áfengi í kjarnasölu, bjór, léttvín og sterkt, mundi hækka en verð á bjór og léttvíni í reynslusölu lækka. Var tekið fram í þessu sambandi að meginstarfsemi verslunarinnar, sem er sala áfengis, hefði ekki staðið undir sér undanfarin ár þrátt fyrir að heildarreksturinn hefði gengið vel. Sama álagning á reynslu- og kjarnavörur mundi auk þess styrkja stöðu nýrra birgja sem leiða ætti til aukinnar samkeppni og þar með lægra vöruverðs.

Fulltrúar framleiðenda og innflytjenda áfengra drykkja sem komu á fund nefndarinnar vöruðu við samþykkt frumvarpsins. Kom fram sú gagnrýni að um væri að ræða dulda hækkun á ríkistekjum sem ekki væri við hæfi að rökstyðja með vísan til skorts á lagastoð. Með hliðsjón af efnahagsaðstæðum væri hækkunin ekki vel tímasett og skaðaði hagsmuni neytenda enn meira en orðið er. Fulltrúi framleiðenda lagði áherslu á að fremur ætti að styðja við innlenda framleiðslu sem gera mætti með því að létta álagningu á bjór.

Nefndin ræddi hvort áfengisgjald væri hluti af innkaupsverði ÁTVR, sbr. 3. efnismgr. 2. gr. frumvarpsins, og tóku fulltrúar fjármálaráðuneytis fram að svo væri. Þeir tóku einnig fram að réttara hefði verið að tala um vörugjöld í stað innflutningsgjalda í lokamálsgrein athugasemda við 2. gr. frumvarpsins.

Nefndin ræddi einnig áhrif frumvarpsins á hækkun vísitölu neysluverðs og fengust þær upplýsingar úr fjármálaráðuneytinu að hún gæti numið 0,06% milli mánaða.

Meiri hlutinn styður frumvarpið í ljósi erfiðrar stöðu ríkissjóðs. Hann vill þó geta þess að staða nýrra birgja verður ekki tryggð nema gætt sé hófs í gjaldtöku vegna sölu nýrrar vöru. Leggur meiri hlutinn því áherslu á að forsendur sem liggja til grundvallar útreikningi gjaldsins liggi fyrir áður en hafist verður handa við innheimtu þess.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Hv. þm. Gunnar Svavarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Pétur H. Blöndal, Ellert B. Schram, Ögmundur Jónasson, Bjarni Benediktsson, Lúðvík Bergvinsson og Kjartan Ólafsson.