136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

verslun með áfengi og tóbak.

209. mál
[15:27]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta var áhugaverð ræða hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni þar sem hann fór mjög rækilega yfir ákveðin lýðheilsufræðileg rök í almennri umræðu um áfengismál. Þetta var til umræðu á þinginu síðast þegar rætt var frumvarp um það hvort setja bæri áfengi í almennar verslanir. Eins og hv. þingmönnum er kunnugt hafa lýðheilsufræðileg rök bent til þess að það sé einkum tvennt sem stuðli að minni áfengisneyslu, annars vegar verð á áfengi, eins og hv. þingmaður fór yfir hér áðan, og hins vegar aðgengi að því. Það sýnir sig að þar sem aðgengi að áfengi er meira eykst neyslan og að því leytinu til eru þessi tvö mál nokkuð skyld, þetta snýst um aðgengi, bæði fjárhagslegt og svo einnig þetta fýsíska. Það er svo merkilegt að meira að segja í Frakklandi, hjá þeirri miklu víndrykkjuþjóð, ræða mennum að skerða aðgengi að áfengi og takmarka sölu þess í matvörubúðum hreinlega út af þeim heilsufarsvanda sem áfengisneysla veldur.

Það er líka áhugavert sem hér hefur verið sagt um raunlækkun á áfengisgjaldi með því að láta það standa í stað milli ára og hvernig það hefur ekki fylgt almennri vísitölu neysluverðs. Fyrir því eru að sjálfsögðu gild rök. Það frumvarp sem hér er hins vegar til umræðu snýst um álagningu Áfengis- og tókbaksverslunar ríkisins á áfengi sem selt er og kemur í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis um að lagastoð skorti fyrir þessari álagningu. Ég tel sjálfsagt mál að þessi stoð verði sett í lög til þess að ÁTVR verði gert kleift að leggja á.

Hins vegar komu þau sjónarmið sterklega fram í umræðum um málið að hugsanlega væri of í lagt, þ.e. að hækka bæði áfengisgjald og gefa heimild til hækkunar álagningar því að samhliða því að þessi lagastoð er sett er um leið veitt heimild til að hækka álagninguna annars vegar á létt vín úr 18% og á sterkt vín úr 12%. Þetta er rökstutt með því að hluti Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins þurfi að standa undir sér og þetta þurfi til en ástæða þess að mitt nafn er ekki undir þessu meirihlutaáliti snýst ekki um lýðheilsufræðileg rök sem ég get tekið undir af fullum huga heldur einkum um það að þessi álagning sé samþykkt í ljósi erfiðrar stöðu ríkisfjármála.

Mér finnst hins vegar of í lagt að koma með þessar hækkanir hvora ofan í aðra á þessum erfiðu tímum fyrir almenning í landinu. Þó að ég telji ekki ástæðu til að hvetja til aukinnar áfengisneyslu á nokkurn hátt, og tel hana reyndar hafa aukist óhóflega á undanförnum árum, verðum við líka að líta til þess að þetta er að sjálfsögðu neysla sem allur almenningur í landinu stundar ef svo má að orði komast og ljóst að þetta mun skapa auknar álögur á heimilin. Því leyfi ég mér að setja fram efasemdir um að þetta sé gert á sama tíma, þ.e. þessar tvær hækkanir settar saman. Þó að ég hafi ekki sterka sannfæringu fyrir því að ekki megi hækka álagninguna þannig að áfengissalan standi undir sér finnst mér þetta of miklar hækkanir í einu í ljósi þess að kaupmáttur almennings skerðist nú verulega í verðbólgunni og að atvinnuástand er erfitt.

Ég horfi líka til þeirra raka sem nefnd hafa verið að ef verð á áfengi hækkar of mikið er auðvitað meiri hætta á bruggi, heimatilbúningi og smygli eins og fólki er kunnugt um. Mér finnst því að við verðum að stíga varlega til jarðar í þessum málum þó að ég geti tekið undir öll þau lýðheilsurök sem hér hafa verið sett fram. Ég er ekki á móti málinu og fyrir því eru engin prinsipp, ég hef hins vegar áhyggjur af því að við göngum of hratt fram með því að gera þetta hvort tveggja í einu.