136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

ársreikningar.

212. mál
[15:33]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006, með síðari breytingum, á þskj. 368, frá hv. efnahags- og skattanefnd.

Frumvarpi þessu er, í samræmi við aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar, ætlað að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja vegna efnahagsástandsins. Er lagt til að fyrirtæki sem að öðru leyti uppfylla skilyrði laganna verði gefinn kostur á að sækja um heimild ársreikningaskrár til að gera upp ársreikninga sína í erlendri mynt fyrir árin 2008 og 2009.

Í umsögnum sem nefndinni hafa borist hefur verið undirstrikuð þörfin á að láta heimild frumvarpsins vara lengur en til 15. desember 2008 og leggur nefndin til að því verði breytt í 30. desember.

Fulltrúar atvinnulífsins sem komu á fund nefndarinnar lögðu til að skilyrði 3. tölul. 8. gr. laga um ársreikninga fyrir heimild til færslu bókhalds og samningar ársreikninga í erlendri mynt yrðu rýmkuð. Það væri til þess fallið að færa framkvæmd ársreikningaskrár til meira samræmis við alþjóðlega reikningsskilastaðla og auka möguleika fyrirtækja til að færa ársreikninga til uppgjörs í erlendri mynt, t.d. orkufyrirtækja og fyrirtækja í ferðaþjónustunni. Að óbreyttu mundu það einkum vera sjávarútvegsfyrirtæki sem gætu nýtt sér heimild frumvarpsins.

Af hálfu fjármálaráðuneytis kom fram sá skilningur að umrætt skilyrði laga um ársreikninga væri í framkvæmd álitið efnislega samhljóða þeim alþjóðlegu reikningsskilastöðlum sem um það fjölluðu. Enn fremur færi betur á að athugasemdir atvinnulífsins kæmu til skoðunar í tengslum við annað frumvarp sem varðar breytingar á lögum um ársreikninga og fjármálaráðherra hefur lagt fram, þskj. 362, 245. mál.

Nefndin fellst á sjónarmið ráðuneytisins og bendir á að frumvarpið sem hér er til umfjöllunar er skammtímaráðstöfun gerð í ljósi sérstakra aðstæðna sem felur í sér frávik frá 9. gr. laga um ársreikninga. Er um að ræða afturvirka en ívilnandi breytingu.

Nefndin bendir hins vegar á að mörg fyrirtæki sem gera upp í íslenskri mynt en hafa meginhluta bæði skulda og tekna í erlendri mynt, og jafnvel einnig hluta gjalda, sýna á pappírnum mikið tap vegna stórkostlegrar veikingar krónunnar undanfarið vegna þess að skuldir þeirra hækka strax á árinu og mynda mikið gengistap en tekjurnar, sem hækka munu næstu árin af sömu ástæðu og eiga að standa undir skuldunum, valda ekki samsvarandi hagnaði í bókhaldinu nema í nokkra mánuði. Ef litið er á rekstur slíkra fyrirtækja frá sjónarhorni erlendrar myntar hefur í raun ekkert breyst, hvorki skuldir né tekjur, en innlendur kostnaður hefur lækkað. Staða slíkra fyrirtækja hefur því styrkst, ef eitthvað er, vegna gengisfalls krónunnar en bókhald í íslenskum krónum sýnir miklu verri stöðu þeirra, sem ekki er rétt. Þetta á við um mörg sjávarútvegsfyrirtæki, fyrirtæki í ferðaþjónustu og iðnfyrirtæki í útflutningi, t.d. álfyrirtæki. Mikilvægt er að fyrirtæki sýni ekki slæma bókhaldslega stöðu að ósekju sem getur skaðað þau mjög mikið gagnvart erlendum lánveitendum.

Með hliðsjón af framansögðu ítrekar nefndin það sem fram hefur komið á fundum hennar að í núverandi efnahagsástandi gefi uppgjör í íslenskri mynt ekki glögga mynd af raunverulegri stöðu margra fyrirtækja og að huga verði að breytingum á skilyrðum 8. gr. ársreikningalaga. Enn fremur að ekki eigi að túlka umrædda lagagrein þrengra en alþjóðlegir reikningsskilastaðlar gefa tilefni til.

Loks leggur nefndin til að 2. efnismgr. 1. gr. frumvarpsins falli brott þar sem ákvæðið virðist ekki hafa sjálfstæða þýðingu.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu sem kemur fram á þingskjalinu.

Hv. þm. Gunnar Svavarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Hv. þm. Grétar Mar Jónsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og styður álitið með fyrirvara.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Pétur H. Blöndal, Ellert B. Schram, Ögmundur Jónasson, Bjarni Benediktsson, Birkir J. Jónsson, Lúðvík Bergvinsson, Katrín Jakobsdóttir og Kjartan Ólafsson.

Herra forseti. Mig langar til að koma með nokkur orð frá eigin brjósti til að lýsa þeim vanda sem við er að etja. Sjávarútvegsfyrirtæki sem veiðir fisk og vinnur hann og flytur til útlanda hefur greinilega tekjur í erlendri mynt. Það er jafnframt með skuldir í erlendri mynt og staðan er því kristaltær

Hótel sem selur herbergi ýmist í erlendri eða innlendri mynt og auglýsir verð í íslenskri mynt, stundum með erlendri mynt á bak við, að herbergið kosti þetta margar evrur og þetta margar krónur, sem þá breytist eftir því sem gengi krónunnar breytist. Það er spurning hvort hótelið er með tekjur í innlendri eða erlendri mynt en það er alveg greinilegt að hagur þess er háður erlendu myntinni, sérstaklega þar sem meginhluti gestanna er erlendur og samningar við erlendar ferðaskrifstofur og slíkt er stór hluti af starfseminni. Ég tel að þarna sé greinilega um að ræða erlenda mynt.

Svo eru það fyrirtæki eins og Bláa lónið. Í Bláa lónið koma bæði erlendir og innlendir gestir og verð er gefið upp bæði í krónum og í evrum. Stærstur hluti gestanna er útlendingar, ég veit ekki hvort það eru 80% eða 90% en það er gífurlegur fjöldi sem borgar í erlendri mynt. Ég mundi telja að það fyrirtæki ætti að hafa heimild til að hafa bókhald í erlendri mynt.

Svo er það spurning um fyrirtæki sem eru dálítið lengra frá og kannski eitthvað sem menn skilja. Maður rekur trillu og selur fiskinn á fiskmarkaði. Þegar krónan fellur og gengi erlendra gjaldmiðla hækkar þá hækkar verð á fiskmarkaði líka vegna þess að fiskurinn er að meginhluta fluttur út. Fiskurinn gefur strax hærra verð þegar krónan fellur og þar af leiðandi má segja að trillukarlinn sem selur fiskinn á markaði sé í reynd að selja í erlendri mynt eða með tilvísun í erlenda mynt þó að hann fái íslenskar krónur fyrir aflann. Þetta er dálítið erfiðara viðfangs og þyrfti að skoða. Hann er kannski með erlendar skuldir á trillunni frá íslenskum banka og þegar gengið fellur hækka skuldirnar heilmikið en tekjurnar ekki nema í nokkra mánuði. Ég mundi telja að þessi aðili ætti að mega færa bókhaldið í erlendri mynt.

Mig langar til að lesa úr 4. gr. frumvarps sem liggur fyrir Alþingi um breytingu á lögum um ársreikninga þar sem einmitt er fjallað um þetta. Þar stendur, með leyfi herra forseta:

„Ársreikningaskrá veitir heimild til færslu bókhalds og samningar ársreiknings í erlendum gjaldmiðli enda teljist hann vera starfrækslugjaldmiðill félagsins. Starfrækslugjaldmiðill er sá gjaldmiðill sem vegur hlutfallslega mest í aðalefnahagsumhverfi félagsins. Aðalefnahagsumhverfið er þar sem félagið aðallega myndar og notar handbært fé. Við mat starfrækslugjaldmiðils skal litið til þess gjaldmiðils sem tekjur og gjöld af rekstrarhreyfingum eru ákvörðuð og greidd í enda sé það sá gjaldmiðill sem mest áhrif hefur á kostnaðarverð og söluverð vara og þjónustu félagsins, m.a. fyrir tilstilli samkeppnisafla, laga og reglna.“

Þetta er mjög athyglisvert, herra forseti. Þetta er stjórnarfrumvarp sem liggur fyrir Alþingi og er ekki búið að samþykkja en ef það verður samþykkt mundi trillukarlinn sennilega falla undir þetta ákvæði vegna þess að sá gjaldmiðill sem hefur mest áhrif á verðið sem hann fær á fiskmarkaði er hugsanlega evran eða dollar eftir því hvert sú fisktegund er mest flutt út til sem hann er að selja. Samkvæmt þessum skilningi þessara breytinga er mjög líklegt að trillukarlinn mætti færa bókhaldið í erlendri mynt og komast hjá þeim mikla vanda sem steðjar að mörgum íslenskum fyrirtækjum sem er sá að erlendu skuldirnar hækka en erlendu tekjurnar hækka ekki fyrr en löngu seinna og á næstu tíu árum til þess að borga skuldirnar.

Þetta vildi ég, herra forseti, koma inn á til þess að útskýra enn frekar þann vanda og þær lausnir sem menn hafa fundið á vandanum, miðað við þær afbrigðilegu aðstæður sem við búum við þegar krónan fellur svona mikið og markaður með krónuna hefur horfið að mestu leyti, er núna bara vöruskiptamarkaður, og útflytjendur og ferðaþjónusta, álútflytjendur og allir í rauninni hagnast á stöðunni vegna þess að ef við horfum á þetta frá sjónarhorni erlendrar myntar hefur ekkert breyst nema innlendi kostnaðurinn sem lækkar en bókhaldið sýnir mjög slæma stöðu ef það er fært í krónum.

Þetta vildi ég geta um, herra forseti, til viðbótar.