136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

aukatekjur ríkissjóðs.

226. mál
[15:48]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum, sem er að finna á þskj. 375 og er frá hv. efnahags- og skattanefnd.

Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Fyrsta breytingin er í samræmi við fyrirheit ríkisstjórnarinnar um að skilmálabreytingar sem gerðar eru á grundvelli laga um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga skuli vera lántaka að kostnaðarlausu. Önnur breytingin kveður á um sams konar heimild til gjaldtöku vegna útgáfu leyfisbréfs til leikskólakennara eins og gildir um grunnskóla- og framhaldsskólakennara. Þriðja breytingin mælir fyrir um gjaldtökuheimild vegna útgáfu og endurnýjunar á innheimtuleyfi samkvæmt innheimtulögum auk endurnýjunar á leyfi fyrir starfrækslu uppboðsmarkaða fyrir sjávarafla. Loks er lagt til að heimilt verði að taka gjald fyrir rafræna miðlun upplýsinga.

Fram kom að 4. gr. frumvarpsins mundi heimila ríkisstofnunum að innheimta gjald fyrir afhendingu gagna á rafrænu formi eins og tíðkast þegar gögn eru afhent í ljósriti.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Hv. þm. Gunnar Svavarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Pétur H. Blöndal, Ellert B. Schram, Ögmundur Jónasson, Bjarni Benediktsson, Birkir J. Jónsson, Lúðvík Bergvinsson, Katrín Jakobsdóttir og Kjartan Ólafsson.