136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

aukatekjur ríkissjóðs.

226. mál
[16:04]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þá koma þakklæti á framfæri við hv. þingmann því að mér skilst að það sem framsögumaður segi í umræðu hafi ákveðið vægi við lagaskýringu. Ég bendi á að þetta er flókið mál. Það getur verið mjög dýrt fyrir sveitarfélagið ef starfsmaður hjá einhverri sýsluskrifstofu eða sveitarfélagi fær beiðni um að senda eitt skjal. Ef hann hins vegar fær beiðni um að senda þúsund skjöl eða þúsund beiðnir um eitthvert ákveðið mál getur verið að kostnaðurinn sé ekkert voðalega mikill á hvert skjal. En það er ekki hægt að sundurgreina fyrir notandann hvort hann sé einn á ferð eða hvort það séu þúsund með honum þannig að menn þurfa að taka eitthvert meðaltal af þessu. Eins og ég benti á í fyrra andsvari mínu er mannakostnaðurinn sennilega langsamlega mesti kostnaðurinn við þetta en ekki vélakostnaður eða annað slíkt. Menn þurfa að hafa það í huga.

Þegar búið er að skanna hlutinn inn skiptir svo sem engu máli hvort það er ein síða eða hundrað síður í sjálfu sér varðandi það að finna það o.s.frv. Svo gæti líka verið að starfsmaður sem er að finna þetta þurfi að leita á mörgum stöðum til að tína saman ýmis skjöl sem fara svo í eina sendingu. Þetta getur verið margsnúið og margslungið. Ég held að sú lending sem hér er tekin, að það skuli greiða 150 kr. fyrir hverja síðu af 10 síðum og 50 kr. eftir það sé ágætislending í þessu máli, en auðvitað gætu menn rætt þetta og fundið kannski enn betri lausn. Mér datt líka í hug að hafa bara eina ákveðna greiðslu, þúsundkall fyrir svona sendingu yfirleitt, en þá þyrfti að skoða nákvæmlega hvernig þetta er gert og hvernig þetta kemur upp við mismunandi aðstæður, ein beiðni, margar beiðnir, starfsmaðurinn gerir ekkert annað allan daginn eða hann hleypur í þetta inn á milli sem getur verið mjög dýrt.

Ég held að ágætislending sé fundin.