136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

aukatekjur ríkissjóðs.

226. mál
[16:06]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi viðbrögð og ég skil í raun og veru yfirlýsingu hans hér á þann veg að hann líti svo á að það sem hann hefur sagt um þetta, um að reglugerðin hljóti að taka mið af því sem lögin ákveða þó að það sé reglugerð við önnur lög en í raun og veru um sambærilegt atriði, hljóti að vera innlegg í, má segja, rökstuðning ef sveitarfélögin vilja fara þess á leit við hæstv. forsætisráðherra að reglugerðin sem ég hef þegar minnst á taki breytingum í samræmi við þessa lagasetningu.

Ég skynja það þannig að hv. formaður efnahags- og skattanefndar líti svo á að viðhorf hans í þessu, framsögumanns, með nefndarálitinu hafi efnislega þýðingu í framhaldinu og að sveitarfélögin geti þá nýtt sér það sem rökstuðning fyrir máli sínu áfram á sama grunni og þau hafa gert í umsögn sinni til nefndarinnar um þetta mál. Ég þakka bara fyrir það og álít að þá hafi þetta mál skýrst heilmikið í þessum stuttu umræðum og stuttu andsvörum sem hér hafa farið fram í þessu samhengi.