136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.

234. mál
[17:10]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tala hér fyrir nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar um frumvarp til laga um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda.

Nefndin hefur fjallað um málið og fékk á sinn fund fulltrúa frá félags- og tryggingamálaráðuneytinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sjónstöð Íslands, Blindrafélaginu, Daufblindrafélagi Íslands, Öryrkjabandalagi Íslands og Persónuvernd. Að auki bárust umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Blindrafélaginu, Öryrkjabandalagi Íslands, Viðskiptaráði Íslands, Daufblindrafélagi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Blindrabókasafni Íslands.

Í frumvarpinu er kveðið á um stofnun sérstakrar þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda. Til þessa hafa þau verkefni sem heyra skulu undir miðstöðina samkvæmt frumvarpinu verið á forsvari þriggja ráðuneyta, þ.e. heilbrigðisráðuneytis, menntamálaráðuneytis og félags- og tryggingamálaráðuneytis. Lagt er til að þessi nýja stofnun heyri einungis undir síðastnefnda ráðuneytið, þ.e. félags- og tryggingamálaráðuneytið. Hlutverk stofnunarinnar verður að veita blindum, sjónskertum og daufblindum einstaklingum þjónustu á sviði ráðgjafar, hæfingar og endurhæfingar með það að markmiði að auka möguleika þeirra til virkni og þátttöku á öllum sviðum samfélagsins til jafns við aðra. Þá skal stofnunin einnig gegna samhæfingarhlutverki og vera þekkingarmiðstöð sem aflar og miðlar þekkingu og leitast við að auka skilning á aðstæðum blindra, sjónskertra og daufblindra.

Stofnunin yfirtekur m.a. starfsemi Sjónstöðvar Íslands, Þjónustu- og endurhæfingarstöðvar sjónskertra, en auk þess mun hluti af starfsemi Blindrabókasafns Íslands heyra undir hina nýju stofnun. Starfsmönnum þar verða boðin áframhaldandi störf.

Nefndin fagnar framkomnu frumvarpi og telur það mjög til bóta fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda. Þá telur nefndin jákvætt að daufblinda sé nú í fyrsta sinn skilgreind sem sérstök fötlun en ekki samþætting tveggja fatlana eins og verið hefur. Frumvarpið hefur verið unnið í góðri samstöðu og samstarfi við hlutaðeigandi aðila og varð nefndin vör við mikla ánægju með þau vinnubrögð, m.a. hjá Blindrafélaginu og Daufblindrafélaginu, sem höfð voru með í ráðum frá upphafi. Telur nefndin mikilvægt þegar unnið er að lagasetningu sem móta á þjónustu við fatlaða að sem flestir séu fengnir að borðinu og unnið sé í samstarfi við hagsmunasamtök og þá aðila sem málið varðar. Þannig er hægt að sætta sjónarmið ef með þarf og nýta þá reynslu og þekkingu sem skapast hefur ásamt því sem tryggt er að þjónustan taki mið af þeim sérþörfum sem fatlaðir kunna að hafa.

Í 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um að forstjóri hinnar nýju stofnunar skuli hafa lokið háskólaprófi og hafa menntun og reynslu sem nýtist í starfi stofnunarinnar. Nefndin telur ekki ástæðu til að gerð sé skilyrðislaus krafa um háskólapróf, enda geti þekking, reynsla og starf að málefnum blindra, sjónskertra og daufblindra nýst allt eins vel. Leggur nefndin því til breytingar þess efnis.

Þeim sjónarmiðum var hreyft fyrir nefndinni að auka mætti aðkomu menntamálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis að rekstri stofnunarinnar. Telur nefndin eðlilegt að verkefnið sé vistað hjá einu ráðuneyti en bendir jafnframt á að stofnuninni sé ætlað viðamikið hlutverk sem fer inn á málefnasvið fleiri ráðuneyta. Með því að ráðuneytin tilnefni fulltrúa í samráðsnefnd stofnunarinnar telur nefndin þó tryggt að faglega verði farið með þau málefni sem kunna að skarast.

Þá telur nefndin rétt að samráðsnefndin verði ráðherra einnig til ráðgjafar um gjaldtöku skv. 9. gr. Greinin kveður á um að stofnuninni sé heimilt að taka gjald fyrir þá þjónustu sem hún veitir skv. 4. gr. Þar er um að ræða viðamikil og fjölbreytt verkefni og leggur nefndin áherslu á að hófs sé gætt við ákvörðun gjalda. Nefndin áréttar jafnframt þann skilning sinn að ekki sé ætlunin að taka gjald fyrir þjónustu sem hingað til hefur verið gjaldfrjáls.

Komið var á framfæri við nefndina athugasemdum þess efnis að blindir, sjónskertir og daufblindir einstaklingar af landsbyggðinni ættu erfiðara um vik að nálgast þá þjónustu sem stofnunin veitir. Þá sé fötlun vegna blindu, sjónskerðingar og daufblindu fátíð og því erfitt að byggja upp þjónustu fyrir þennan hóp í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Með 5. mgr. 4. gr. frumvarpsins er stofnuninni veitt heimild til að gera þjónustusamninga við sveitarfélög og telur nefndin það mjög til bóta. Nefndin telur mikilvægt að reynt verði að jafna kostnað eftir föngum og jafnréttissjónarmiða verði gætt og enn fremur að allir eigi greiðan aðgang að þjónustu stofnunarinnar.

Meðal þeirra verkefna sem stofnuninni eru falin með c-lið 1. tölul. 2. mgr. 4. gr. er að meta þörf og úthluta sérhæfðum hjálpartækjum. Það atriði er endurtekið í 8. tölul. og leggur nefndin til að sá liður falli brott og telur að um tvítekningu sé að ræða. Til þess að laga textann er þetta fellt út og 8. tölul. steypt inn í c-lið 1. tölul. 2. mgr. 4. gr.

Hvað varðar þá skyldu stofnunarinnar að halda skrá yfir blinda, sjónskerta og daufblinda áréttar nefndin þann skilning sinn að tilgangur skráningar sé að bæta þjónustu við hópinn, meta þörf fyrir þjónustu og halda til haga upplýsingum um þá þjónustu sem er veitt. Í gildandi lögum er til staðar sambærilegt ákvæði og því ekki um að ræða eðlisbreytingu á skráningu.

Í nefndinni kom til umræðu að koma á formlegri tilkynningarskyldu stofnunarinnar vegna einstaklinga sem eiga bágt með eða eru ófærir um að stjórna ökutækjum vegna sjónskerðingar. Nefndin leggur þó ekki til breytingar þess efnis enda eðlilegra að kveða á um slíkt í umferðarlögum.

Frumvarpið miðar að því að gera þjónustu við blinda, sjónskerta og daufblinda heildstæðari þannig að hún sé sem mest aðgengileg á einum stað og að þar sé jafnframt tryggð sem best yfirsýn yfir aðstæður hópsins. Hér er um að ræða réttindamál, frumvarpið var unnið í samráði við hlutaðeigandi aðila og breið samstaða og sátt er um það. Telur nefndin því eðlilegt að hraða afgreiðslu þess eins og hægt er.

Nefndin leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Kristinn H. Gunnarsson, Jón Gunnarsson og Ögmundur Jónasson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið skrifa Guðbjartur Hannesson, formaður félags- og tryggingamálanefndar, Ármann Kr. Ólafsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Helga Sigrún Harðardóttir, Kjartan Ólafsson og Árni Johnsen.

Ekki þarf að taka fram að mjög mikil samstaða var um málið, þetta er mjög gott mál. Þarna er þjónusta samþætt og er það gott dæmi um að við reynum að leiða verkefni sem heyra undir mörg ráðuneyti undir eina stofnun til að bæta þjónustuna, gera hana heildstæðari og aðgengilegri fyrir þá sem hennar þurfa að njóta.

Ástæða er til þess að undirstrika það sem kemur fram í umsögninni að gæta ber hófs varðandi gjaldtökur fyrir þá þjónustu sem þessi nýja þjónustustofnun veitir og undirstrika mikilvægi þess að jafna aðstöðu landsbyggðar og þéttbýlis varðandi þjónustu. Markmiðið á auðvitað að vera eftir föngum að menn geti notið þjónustu í sinni heimabyggð.

Upp kom umræða varðandi skráningar og hvort við værum að brjóta í bága við ákvæði sem Persónuvernd mundi gera athugasemdir við. Við fengum umsögn frá Persónuvernd og eins og kemur fram í nefndarálitinu taldi hún að þarna væri unnið í samræmi við lögin enda væri fyrst og fremst verið að halda utan um upplýsingar varðandi þjónustu við viðkomandi einstaklinga en ekki verið að veita aðgang að skrám til annarra nota.

Ég sagði einhvern tíma í nefndinni að þetta væri eitt af þeim málum sem er virkilega gaman að verði afgreidd og gaman væri að ná því fyrir jól. Það verður þá jólagjöfin til blindra, sjónskertra og daufblindra og ánægjuleg nýjung í þjónustu við þá.