136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.

234. mál
[17:24]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Fyrst vegna síðustu orða fyrri ræðumanns, það er gott til þess að vita að málefni blindra og sjónskertra séu stjórnarandstöðunni ljós í skammdeginu.

Ég fór yfir þetta mál við 1. umr. og ætla aðeins að bæta við örfáum orðum. Ég fagna því að við getum tekið þetta mikilvæga framfaraskref í velferðarþjónustunni þrátt fyrir þær aðstæður sem við búum almennt við enda á því brýn þörf. Hún er einkum sprottin af tvennu, annars vegar af því að grunnskólarnir voru fluttir til sveitarfélaganna en hópar eins og blindir og sjónskertir, sem eru auðvitað fremur fámennir, hafa þörf fyrir sérstakan stuðning, sérmenntað fólk, sérstaka aðstoð sem óhjákvæmilegt er að þarf að veita frá einum stað á Íslandi en hvert og eitt sveitarfélag getur ekki komið sér upp. Það hefur þess vegna verið mikill og alvarlegur skortur á stuðningi við blind og sjónskert skólabörn í námi og það er nokkuð sem við sem samfélag viljum ekki búa við og tökum á hvernig svo sem árar. Hins vegar er endurhæfingarþátturinn, þó að gott starf hafi út af fyrir sig verið unnið þurfum við að efla mjög endurhæfingu blindra og sjónskertra, ekki síður en ýmissa annarra hópa, enda hefur komið á daginn að það vantar allt of mikið upp á það hjá okkur, þegar við berum okkur saman við nágrannaþjóðir okkar, að við þjálfum fólk upp og tökumst á við það þegar fólk veikist eða verður fyrir fötlun eða er fætt með hana. Það vantar upp á að við sköpum því skilyrði til að það geti orðið virkt á vinnumarkaði, virkt í samfélaginu og verið sjálfbjarga. Við höfum ekki gert nándar nærri því nóg af því að hjálpa fólki til sjálfshjálpar og stundum lagt of mikla áherslu á neyðaraðstoð fremur en skynsamlega fjárfestingu í einstaklingunum sjálfum, uppbyggingu þeirra og eflingu þannig að þeir séu sjálfir færir um að sigrast á fötlun sinni eða veikindum og taka virkan þátt í hinu daglega lífi.

Ég held að það mál sem hér liggur fyrir um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda sé þess vegna til fyrirmyndar um það sem gera má. Það er ástæða til að þakka hæstv. menntamálaráðherra Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, hæstv. heilbrigðisráðherra Guðlaugi Þór Þórðarsyni og þá ekki síst hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur sem hefur haft veg og vanda af vinnslu þessa frumvarps. Sú skjóta og góða afgreiðsla sem málið hefur fengið í hv. félags- og tryggingamálanefnd sýnir ákaflega vel af hversu mikilli skynsemi staðið var að undirbúningnum og í góðu samráði við alla málsaðila, umfjöllun í nefnd tók óverulegan tíma og allir sem þar komu að málinu voru ákaflega sáttir við ekki bara öll meginatriði máls heldur nánast öll efnisatriði málsins. Það er ástæða til að þakka fyrir hið góða samráð sem hefur m.a. verið haft við fulltrúa notendanna, Blindrafélagið og Daufblindrafélagið. Þó að það sé sjálfsagt að við sem fötluð erum eða öryrkjar eigum að koma að ákvörðunum um okkar eigin málefni hefur það stundum farist fyrir hér í þinginu og þess vegna er vert að minnast líka á það þegar vel er munað eftir því.

Ég legg að lokum bara áherslu á það að sú aðferð að samþætta þjónustu við fötlunarhóp hjá mörgum ráðuneytum á einum stað, fyrir allt landið og fyrir leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla, háskóla, heilbrigðisþjónustu, foreldra o.s.frv. til að leita til á einn stað um þekkingu, stuðning og þjálfun held ég að sé til fyrirmyndar fyrir aðra hópa og að full ástæða sé t.d. til þess að skoða þær aðstæður sem heyrnarskertum og heyrnarlausum börnum eru búnar í hinu almenna skólakerfi og hvaða stuðning þeir nemendur fá. Ég held að eitt og annað bendi til að þar sé um að ræða vanræktan hóp, þau börn, eins og blindu og sjónskertu börnin voru lengi í grunnskólunum hjá okkur, og að full ástæða væri til að beita sömu aðferðafræði við að bæta og efla þjónustu við þann hóp.