136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.

234. mál
[17:33]
Horfa

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla reyndar ekki að segja margt, ég get tekið undir hvert einasta orð sem fram hefur komið í umræðunni og fagna því að málið er í höfn og óska blindum, sjónskertum og daufblindum og aðstandendum þeirra til hamingju með að þessi þjónustu- og þekkingarmiðstöð er að verða að veruleika. Allt of lengi hefur þjónustan við þennan hóp verið á mörgum stöðum og ekki samþætt, ekki öll á einum stað og það hefur bitnað á þjónustunni.

Hér var vel að verki staðið, undirbúningurinn að þingmálinu til fyrirmyndar, margir komu þar að, þrír ráðherrar og hagsmunaaðilar. Ég átti þess kost — eins og kemur fram, ég skrifa undir nefndarálitið — að fylgjast með umræðunni um málið í hv. félags- og tryggingamálanefnd og það var allt hið ánægjulegasta. Ég vildi láta það koma fram hér og taka undir ánægju annarra sem hér hafa talað vegna málsins, sem er sérstaklega gleðilegt núna í aðdraganda jólanna. Ég gerði þetta að sérstöku umræðuefni í útvarpsþætti sem ég kom í nú í vikunni, þannig að ég þarf ekki að hafa frekari orð um þetta en óska öllum hlutaðeigandi til hamingju með þennan áfanga.