136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

afbrigði um dagskrármál.

[18:26]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Í þessari nýju dagskrá er að finna tvö ný mál sem koma hér til 1. umr. í dag, annars vegar mál er varðar málshöfðun gegn Bretum og hins vegar svokallað eftirlaunamál. Ég fagna því að þau séu hér fram komin.

Ég vil hins vegar spyrja hvort ekki sé að vænta á dagskrá þingsins frumvarps til breytinga á lögum um neyðarlögin, um kyrrsetningu eigna auðmanna, sem ég tel að sé ekki síður mikilvægt en þau tvö nýju mál sem hér eru tekin á dagskrá með afbrigðum í dag.