136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

kjararáð.

210. mál
[20:16]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þegar ljóst var hvert stefndi í íslensku efnahagslífi fóru að heyrast raddir, þar á meðal mín eigin, um nauðsyn þess að jafna kjörin í landinu. Nokkuð sem við, mörg hver, höfum talað fyrir um langt skeið og gagnrýnt hve mjög stefndi í átt til aukinnar mismununar, kjaraójafnaðar á Íslandi, en nú þegar þrengdi að væri augljósara en nokkru sinni fyrr að grípa þyrfti til róttækra aðgerða til að jafna kjörin á Íslandi.

Ríkisstjórn Íslands hefur því miður ekki sýnt tilburði í þá veru. Það birtist ekki í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar, þar er ekki að finna neinn hátekjuskatt, þar er stefnt í jafna skattahækkun á alla landsmenn í fyrsta skipti frá því að lögum var breytt árið 1998 í þá veru að þeir sem hafa viðurværi sitt af greiðslum frá almannatryggingum yrðu varðir þannig að annaðhvort hækkuðu greiðslurnar samkvæmt neysluvísitölu eða raunvísitölu og farið eftir hvor vísitalan væri hærri, við hana átti að miða. Það er kaldhæðni örlaganna að stjórnmálaflokkur sem kallar sig jafnaðarmannaflokk Íslands skuli ríða á vaðið og ganga gegn þessum lögum í fyrsta skipti sem á þau reynir og það eftir allt talið og allt glamrið, ekki bara í aðdraganda síðustu alþingiskosninga heldur á undanförnum missirum og árum. Þetta er um hina raunverulegu kjarastefnu ríkisstjórnarinnar eins og hún birtist okkur.

Síðan að því frumvarpi sem hér liggur á borðum, um að beina því til kjararáðs að lækka alla þá sem undir ráðið heyra varðandi launaákvarðanir um 5–15%. Ég og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði styðjum þetta frumvarp en að sumu leyti með blendnum huga. Við höfum lagt fram annað frumvarp sem gerir ráð fyrir því að einvörðungu verði ráðist í skerðingu á tekjum yfir tilteknu marki. Við gerum tillögu um kjaraskerðingu á launum umfram 450 þús. kr., að þau verði skert um 20% og það verði ekki hróflað við þeim krónum sem liggja þar undir. Og af því að menn tala um fordæmi og skilaboð út í samfélagið finnst mér þetta skipta mjög miklu máli. Mér finnst skipta miklu máli að við gefum ekki þau skilaboð til launamarkaðarins almennt að ráðast eigi í skerðingu á launum allra, Það á ekki að gera slíkt, það á ekki að fara að skerða kjör sjúkraliða eða strætisvagnastjóra eða annarra almennra launamanna, það á ekki að gera að mínu mati. Sannast sagna er það áhyggjuefni hve hart er gengið fram í þessum efnum á ýmsum vinnustöðum sem notfæra sér ástandið til að skerða laun og skerða kjör.

Hér er verið að horfa til þeirra sem starfa í þessu húsi og þá ráðherra, þingmanna og æðstu embættismanna en undir kjararáð heyra ýmsir aðrir hópar, t.d. prestar. Þegar ég tala um að við samþykkjum þetta frumvarp, og þar tala ég fyrir mig sjálfan persónulega, er ég með ákveðnar efasemdir t.d. varðandi þann hóp sem er stétt manna sem er ekki ofsæl af sínum kjörum. Ég er ekki alls kostar sáttur við að samþykkja kjaraskerðingu á hendur þessari stétt. Ég er fylgjandi því að taka hátekjufólkið á Íslandi og færa það niður í kjörum, ekki aðra, og ég vil að lægst launaða fólkið hækki í launum. Með öðrum orðum, við erum að tala um kjarajöfnun. Það er sú stefna sem ég er fylgjandi og í þeim anda er okkar frumvarp um skerðingar á kjörum einvörðungu umfram tiltekna upphæð. Við getum síðan rætt hver hún eigi að vera, hvar sé eðlilegt að skerða kjörin. En ég legg áherslu á það, hæstv. forseti, að mér finnst það fordæmi sem hér er verið að tala um ekki eiga að vera eitthvert fordæmi, einhver vísbending, einhver skilaboð, einhverjar óskir út á launamarkaðinn gagnvart öllu fólki, alls ekki.

Verðbólgan er að vinna kjaraskerðingarverkið og því miður allt of hratt hjá lágtekju- og millitekjufólkinu á Íslandi og í komandi kjarasamningum hljóta menn að horfa til stöðu þessara hópa, bæði hvað varðar laun en ekki síður hvernig velferðarsamfélagið kemur til móts við þessa hópa, þá er ég að horfa til skattanna og til millifærslukerfisins. Við skulum ekki gleyma því að verið er að skerða vaxtabætur, það er verið að skerða barnabæturnar, þær hækka í samræmi við þær hækkanir sem gert var ráð fyrir í fjárlögum þegar lagt var af stað með það í byrjun október en ekki miðað við verðbólguna eins og hún er núna.

Ég nefndi presta sérstaklega vegna þess að prestar eru hópur, stétt fólks sem á að mínu mati í rauninni ekki samleið með þeim sem heyra undir kjararáð. Þar eru forstjórarnir og æðstu embættismenn en prestar eru stétt manna sem eru á öðrum kjörum. Ég held að það hljóti að verða þeirri stétt og forsvarsmönnum hennar umhugsunarefni að hafa yfirleitt óskað eftir því að fara undir kjararáðið og hefði hún verið betur komin innan heildarsamtaka opinberra starfsmanna, í þessu tilviki BHM, Bandalagi háskólamanna, í stað þess að fara í vinarklærnar hjá kjararáði sem er að vísu alltaf óskaplega gott við æðstu forstjórana og þá sem tróna hæst í kerfi hins opinbera. Þessum almennu sjónarmiðum vildi ég gera grein fyrir, hæstv. forseti.